23:14
{mosimage}
(Hreggviður Magnússon)
ÍR hefur tryggt sér sæti í 8-liða úrslitum Subwaybikars karla eftir góðan 69-56 sigur á Tindastól í kvöld. Karfan.is ræddi við mann leiksins, Hreggvið Magnússon, í leikslok sem og Ísak Einarsson sem átti góðan dag fyrir Stólana.
Hreggviður setti 31 stig í kvöld og stýrði sínum mönnum eins og herforingi í síðari hálfleik enda var hann allt annað en sáttur við fyrri hálfleikinn.
,,Okkur hefur gengið rosalega vel í bikarleikjum og okkur hefur liðið vel þegar allt er undir og við spiluðum vel í kvöld en sóknin var samt hörmuleg og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Okkur fannst við kannski ekki spila okkar besta leik í dag en aðalsmerki liðsins er vörnin og við erum í þriðja sæti yfir þau lið sem fá fæst stig á sig í deildarkeppninni. Það skilar okkur vel enda skorar Tindastóll bara 56 stig á okkur í kvöld,“ sagði Hreggviður sigurreifur í kvöld. Aðspurður hvort hann hefði ekki verið byrjað að klæja í fingurna við að spila bolta á ný eftir meiðsli svaraði Hreggviður:
,,Að sjálfsögðu var mig farið að klæja og það var óþolandi að standa í þessum meiðslum og veikindum sem ég átti við að stríða en það er hrikalega gott að vera kominn til baka og ég er í góðu formi og er að finna mig vel en það er fyrst og fremst hugurinn og sálin í liðinu sem skapar þennan mikla sigurvilja. Við höfum verið að vinna baki brotnu á æfingum undanfarið og það er það sem fyrst og fremst hefur verið að skila þessum sigrum undanfarið,“ sagði Hreggviður en á hann sér einhverja óskaandstæðinga í 8-liða úrslitum?
,,Það skiptir engu máli, við tökum þá alla!“
{mosimage}
(Ísak Einarsson)
Ísak Einarsson gerði 17 stig og tók 7 fráköst fyrir Tindastól í kvöld og hann viðurkenndi að breytingarnar á Tindastólsliðinu undanfarið hefðu tekið sinn toll.
,,Okkur fannst við vera komnir með góðan damp í liðið þegar Flæng og Flake voru heilir og Ben Luber var með okkur en svo fer Luber heim og þá verður mikil breyting hjá okkur. Ofan á þetta meiðast Flake og Flæng og Fall hefur átt erfitt með að komast inn í þetta hjá okkur. Við eigum samt marga góða íslenska leikmenn. Axel Kárason er væntanlegur og þeir Rikki og Óli eru komnir svo þetta er bara spennandi,“ sagði Ísak en veit hann af hverju gengi Stólanna hefur aldrei verið neitt sérstakt í bikarkeppninni?
,,Það er nú bara oft þannig að við höfum ekki komist langt í þessari keppni en ég hef bara engar útskýringar á því!“
Staða Tindastóls í deildinni er fín og hefur oft verið verri og sagði Ísak það mikilvægt að byggja vel ofan á íslenska kjarnann í liðinu. ,,Vonandi sjáum við eftir áramót íslenska leikmannakjarnann okkar stækka og þá þurfum við að byggja vel ofan á það og horfum bara bjartsýnir á síðari hluta tímabilsins. Það er heppilegt að það séu ekki leikir milli jóla og nýárs t.d. upp á meiðslin hjá Flake og maður vonar bara að hann jafni sig fljótt enda hörku leikmaður,“ sagði Ísak Einarsson í leikslok.



