spot_img
HomeFréttirAf flottum troðslum

Af flottum troðslum

14:00

{mosimage}

Kristinn Óskarsson skrifar um dómaramál.

Í síðustu viku fjallaði ég um umgjörð leikja sem ég tel að við getum bætt mikið.  Í þessari viku langar mig að koma inná skemmtanagildi leiksins og flott tilþrif, en einnig minna á „skuggahliðar“ tilþrifanna, þ.e. bilanir í búnaði.

Leikurinn okkar er stórkostlegur.  Þegar hann er leikinn af góðum íþróttamönnum gera sér allir grein fyrir flottu tilþrifunum og þeirri íþróttamennsku sem leikmennirnir búa yfir, jafnvel þeir sem lítið þekkja til leiksins.  Úrklippur úr bestu leikjum og þættir á borð við „NBA Action“ hafa glatt íþróttaáhugamenn um langt skeið.

Dómarar eru körfuboltasjúklingar, þeir mæta manna best á leiki og hafa unun af flottum tilþrifum.  Það má líkja dómgæslunni við fíkn, maður fær aldrei nóg af boltanum og sækir endalaust í meira.  Þangað til tími er kominn á meðferð!

Þegar ég byrjaði að dæma í efstu deild árið 1988 voru erlendir leikmenn bannaðir.  Þá gátu örfáir leikmenn deildarinnar troðið og aðeins lítill hluti þeirra gat troðið í leik.  Þessi þáttur leiksins var sjaldséður og fremur tilþrifalítill þegar hann átti sér stað.  Ætli Svali Björgvinsson hefði ekki talað um „iðnaðar-troðslur“, en það eru troðslur sem virðast fremur gerðar af skyldu en ástríðu.  Svo komu kanarnir.  Þá lifnaði nú heldur betur yfir þessum þætti leiksins og við fengum marga háloftafugla og troðkeppnir fengu alvöru gildi.

Sjálfsagt muna flestir, sem muna þennan tíma yfir höfuð, eftir einhverjum af fyrstu könum síns liðs.  Ég get ekki látið hjá líða að nefna Sandy Anderson sem kom til Keflavíkur og stökk yfir fimm stóla!  Terry Acox var í 1. deildinni á Skaganum og menn gerður sér far um að sjá hann.  Jonathan Bow mætti með góminn og harpixið og gerði fína hluti.  Ég man þegar ég dæmdi með Sigga Valla á Strandgötunni og Siggi stúderaði Bow, fann og faldi filmubox með harpixi svo Bow eyddi öllum hálfleiknum í að leita!  Þetta voru skemmtilegir tímar.

Á sama tíma komu tilmæli frá FIBA um að vandamál væri með búnað víða og tekið skyldi hart á tæknibrotum skv. 38 grein en þar segir m.a.: Dæma skal tæknivilla á leikmann fyrir að:  „Grípa um körfuhring þannig að þungi leikmanns hvíli á hringnum, nema leikmaður grípi augnablik í hringinn eftir troðslu eða ef hann, að mati dómarans, er að reyna að forða sér eða öðrum leikmönnum frá meiðslum“.  Þessi regla hefur haldist óbreytt allar götur síðan. 

Margir minnast þessara tíma með hryllingi.  Dómarar dæmdu tæknivillur á menn hægri vinstri fyrir að hanga í hring, enda eftirgefanlegir hringir ekki almennt í umferð.  Í ég fór á NM karla í Osló 1992 og sá Gumma Braga brjóta spjald með troðslu, fram að því hafði ég haldið að slíkt væri bara á færri Darryl Dawkins!  Gera varð hlé á leiknum í tæpa tvo tíma.

Síðan þá hef ég fimm sinnum sjálfur orðið vitni að því að karfa eða spjald hafi gefið sig og alltaf hefur það kostað miklar tafir og almenn leiðindi.  Reglurnar eru skýrar og fyrirmæli FIBA eru ítrekuð reglulega um að vernda búnaðinn.  Sá FIBA dómari sem ekki fylgir tilmælum FIBA kemst ekki langt, það sama gildir um dómara í hverju landi.

Er hægt að troða með ástríðu og tilfinningum án þess að hanga í hringnum? Já algerlega.  T.d. segist Dwight Howard troðkóngur NBA alls ekki hanga í hringnum því „hvað er flott við að sjá mann uppá 2.11 hanga í hringnum og nánast snerta gólfið?“.  Ekki eru troðslurnar hans neitt slor!

Ég vil heldur minna „hangs“ og sleppa við tafir á meðan skipt er um spjald eða hring.

Næst þegar þú sérð dómara gefa aðvörun eða tæknivillu fyrir að hanga í hring, mundu að hann er bara að framfylgja því sem hann er þjálfaður til.

Samantekt:
Körfuknalleikur er stórkostlegur leikur og troðslur hluti hans.
Leiðinlegar tafir verða þegar körfur og spjöld gefa sig.
Það er hlutverk dómara að vernda búnaðinn og þeim ber að fara eftir tilmælum FIBA og leikreglum.

Kær kveðja,
Kristinn Óskarsson, alþjóðlegur körfuknattleiksdómari

Fyrri skrif Kristins
Umgjörð leikja

Af hverju er alltaf dæmt á unga leikmanninn?

Af hverju dæmir dómarinn ekki

Snertingar milli varnar- og sóknarmanns

Mynd: Snorri Örn

Fréttir
- Auglýsing -