08:33
{mosimage}
(Tekst nýliðum Snæfells að landa öðrum heimasigri í kvöld)
Heil umferð fer fram í Iceland Express deild kvenna í kvöld og er það síðasta umferðin fyrir jól hjá konunum. Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15.
Í Toyotahöllinni í Reykjanesbæ tekur Keflavík á móti botnliði Fjölnis. Keflavík er í 3. sæti deildarinnar með 14 stig og sigur í kvöld færi ansi langt með að tryggja Íslandsmeisturunum sæti í A hluta deildarinnar þegar henni verður skipt upp. Keflavík hefur unnið tvo síðustu deildarleiki sína eftir naumt 80-77 tap gegn Haukum þann 26. nóvember síðastliðinn. Fjölnir hefur hins vegar aðeins unnið einn leik í deildinni og það var gegn nýliðum Snæfells þann 17. nóvember.
Fátt annað er í boði fyrir Grindavík en sigur á sterkum heimavelli Hamarskvenna. Grindvíkingar reyna nú allt hvað þeir geta til þess að koma sér í A hluta deildarinnar og fylgja fast á hæla Vals og KR sem eru með 10 stig en Grindavík hefur 8. Hamar er í þægilegri stöðu og þarf ekki nema sigur til viðbótar og þá er sæti þeirra nánast gulltryggt í A hlutanum. Liðin mætust í fyrri umferðinni í Röstinni þar sem Hamar fór með nauman 80-83 sigur af hólmi.
Topplið Hauka tekur á móti KR að Ásvöllum en Haukar skelltu KR í fyrri leiknum í DHL-Höllinni 53-72. Haukar eru með 18 stig á toppnum í deildinni en KR í bullandi baráttu um sæti í A hlutanum og því má gera ráð fyrir miklum slag þegar systurnar Guðrún og Sigrún Ámundadætur mæta aftur á Ásvelli en þar þreyttu þær frumraun sína í úrvalsdeild.
Einu stig Snæfells í deildinni í vetur hafa komið í Hólminum og þar var á ferðinni nokkuð óvæntur sigur gegn Grindavík. Valskonur berjast hart um sæti í A hluta en Snæfell leikur í B hluta eftir að deildinni verður skipt upp en Hólmarar eru sýnd veiði á heimavelli en ekki gefin eins og Grindvíkingar fengu að kynnast. Snæfell lék hörkuleik við Val í Vodafonehöllinni þar sem Valskonur rétt mörðu 52-47 sigur í fyrri umferðinni.
Mynd: Eyþór
[email protected]



