spot_img
HomeFréttirLakers lögðu Knicks í spennuleik

Lakers lögðu Knicks í spennuleik

09:51:47
Charlotte Bobcats bundu enda á sjö leikja taphrinu með sigri á Chicago Bulls eftir framlengdan leik í nótt. Þá lögðu LA Lakers NY Knicks að velli í spennuleik og Tracy McGrady var með þrefalda tvennu í sigri Houston á Denver Nuggets.

Úrslit og nánari umfjöllun um leikina hér að neðan:
LA Lakers 116 – New York Knicks 114 Tölfræði

Lakers þurftu að vinna upp 15 stiga mun í hálfleik til að landa sigri á Knicks í spennandi leik í nótt. Mikil veikindi voru í herbúðum Lakers þar sem menn eins og Pau Gasol máttu sitja heima með flensu, en Lamar Odom, sem sjálfur var með snert af flensunni, nýtti tækifærið í byrjunarliðinu og átti góðan leik.

Knicks, sem voru einnig fáliðaðir eins og svo oft undanfarið, voru mun betri framan af leik þar sem þeir voru að hitta vel utan af velli, sérstaklega úr 3ja stiga skotunum, en Lakers komu ákveðnir til leiks í þeim seinni. Þeir söxuðu jafnt og þétt á forskotið undir forystu Kobe Bryants og voru lokasekúndurnar æsispennandi. Bryant kom Lakers í 111-109 þegar um ein og hálf mínúta var eftir, en Nate Robinson, sem skoraði 33 stig í leiknum, svaraði að bragði með 3ja stiga körfu og náði forystunni á ný. Trevor Ariza náði forystunni á ný fyrir Lakers en Robinson klikkaði á færi til að koma Knicks yfir á ný 12 sek fyrir leikslok. Derek Fisher kláraði síðan leikinn af vítalínunni og 11. heimasigur Lakers í röð var staðreynd.

Robinson var stigahæstur Knicks með 33 stig, en Quentin Richardson og David Lee komu næstir með 18 stig.

Kobe var stigahæstur Lakers með 28 stig, Odom var með 17 stig og 12 fráköst og Andrew Bynum var með 13 stig, 11 fráköst og fjögur varin skot.

Chicago Bulls 101 – Charlotte Bobcats 110 Tölfræði

DJ Augustin, nýliði Charlotte Bobcats, jarðaði nýstirnið Derrick Rose hjá Chicago Bulls í leik liðanna í nótt, þar sem fáliðiaðir Charlottemenn höfðu sigur í framlengdum leik.

Augustin skoraði 29 stig og hélt Rose í skefjum í vörninni auk þess sem hann jafnaði leikinn með þremur vítum undir lok venjulegs leiktíma. Hann hefur leikið vel í vetur en fékk aukinn spilatíma í leiknum þar sem Raja Bell var rekinn í sturtu í 1. leikhluta fyrir að láta dómara heyra það.

Þar með rufu Bobcats sjö leikja taphrinu, þrátt fyrir að vera án Gerald Wallace, sem fékk frí til að fara í jarðarför föður síns.

Augustin var stigahæstur Charlotte manna en næstur honum komu Raymond Felton með 21 stig og Emeka Okafor með 20 3 fráköst.

Hjá Bulls var Ben Gordon með 25 stig og Tyrus Thomas 22 stig.

New Orleans Hornets 91 – Memphis Grizzlies 84 Tölfræði

New Orleans Hornets bundu enda á fjögurra leikja sigurhrinu Memphis með baráttusigri þar sem varnarleikurinn var lykilatriðið. Chris Paul jafnaði einmitt met Alvins Robertsons yfir flesta leiki í röð með amk. einn stolinn bolta, eða 105 talsins.

Hornets voru mun sterkari framan af en hleyptu Grizzlies aftur inn í leikinn og var jafnt, 81-81 þegar 3 mín voru til leiksloka. Peja Stojakovic hitti þá úr 3ja stiga skoti úr horninu og kom sínum mönnum yfir fyrir fullt og allt.

„Sóknarleikurinn fór í rugl hjá okkur, en við vorum stöðugir í vörninni,“ sagði David West hjá Hornets í leikslok. „Svo héldum við haus og kláruðum sóknirnar á lokasprettinum til að vinna leikinn.“

Paul og West voru stigahæstir Hornetsmanna með 18 stig hvor, En Rudy Gay (28 stig) og OJ Mayo (20 stig) fóru fyrir Grizzlies.
 
LA Clippers 98 – Oklahoma Thunder 88 Tölfræði


Tvö af verstu liðum vetrarins í NBA komu saman í Oklahoma þar sem Thunder tapaði fyrir LA Clippers.

Að vísu hafa Clippers verið að finna sig eftir að Zach Randolph fór að falla betur að spili þeirra og hafa nú unnið þrjá leiki í röð. Randolph var einmitt maðurinn á bak við þennan sigur, sem var aldrei ógnað verulega, með 22 stig og 13 fráköst. Baron Davis bætti 19 stigum í púkkið og Marcus Camby var með 13 stig og 15 fráköst.

Hjá Thunder var Kevin Durant með 25 stig.

Denver Nuggets 96 – Houston Rockets 108 Tölfræði

Houston hristu af sér allt meiðslavesen og unnu stórsigur á spútnikliði Denver Nuggets í nótt. Það voru þeir Tracy McGrady (20/14/10), Yao Ming (32/7) og Ron Artest (20 stig) sem voru lykilmennirnir í sigri Houston. Hjá Denver var Carmelo Anthony 22 stig en Chauncey Billups átti afleitan leik með aðeins 8 stig of slæma skotnýtingu.

Sacramento Kings 77 – Portland Trailblazers 109 Tölfræði

Eftir sigur í sínum fyrsta leik með Sacramento fékk Kenny Natt ókeypis kennslustund í körfuknattleik í nótt þegar Portland Trailblazers tóku þá í bakaríið.

Brandon Roy skoraði 29 stig áður en hann var hvíldur í fjórða leikhluta. Með sigrinum bundu Portland enda á þriggja leikja taphrinu, þá lengstu hjá þeim í vetur.
Roy var stigahæstur Portland, en næstur hinum kom LaMarcus Aldridge með 15 stig og 10 fráköst. John Salmons var stigahæstur Kings með 21 stig, en þau komu öll í fyrri hálfleik, og Fransico Garcia var með 12.

Staðan í NBA

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -