spot_img
HomeFréttirSnæfell tók 30 stiga sigur í Ljónagryfjunni

Snæfell tók 30 stiga sigur í Ljónagryfjunni


Hlynur setur niður 2 stig í gær gegn UMFN
Njarðvíkingar fengu Snæfellinga í heimsókn í síðustu umferð deildarinnar þetta árið. Fyrir leikinn stóðu Njarðvíkingar í 4. sætinu með 12 stig en Snæfellingar sigri á eftir í 7. sæti með 10 stig. Hjá Snæfelli var Atli Rafn ekki með en Magni var kominn í liðið eftir próftörn og engar breytingar hjá Njarðvík. Þeir spretthörðu Rögnvaldur Hreiðarsson og Kristinn Óskarsson dæmdu í kvöld.

Snæfellingar kunnu vel við sig og tóku fyrstu sex stigin, en Adam var ekki lengi í paradís og voru heimamenn ekki lengi að taka við sér með sitt hvorum stórþristum frá Magga Gunn og Loga Gunn og virtust þeir sprækir. Heimamenn hleyptu upp leiknum með góðum kafla og komust í 15-10 þar sem Snæfellinar fóru oft illa að ráði sínu og áttu erfitt með hressa Njarðvíkinga. Snæfellingar leystu sín mál og hertu betur á vörninni en í sókninni og með Jón Ólaf í fararbroddi náðu þeir að síga fram úr og leiddu eftir fyrsta hluta 20-27.  

Snæfellingar hreinlega stoppuðu allt í sóknarleik Njarðvíkinga og sá Valur ástæðu að taka leikhlé þegar Snæfell hafði labbað í gegnum vörn þeirra með 7-0 strax í byrjun annars hluta. Friðrik átti fyrstu stig Njarðvíkinga í hlutanum og tróð þeim með tilþrifum og voru það einu tilþrif Njarðvíkur í leikhlutanum. Valur sá svo ástæðu til annara viðræðna við sína menn þegar Snæfell sló í 20 stiga muninn 22-42 og varnarleikur Njarðvíkinga í lágflugi og ekkert gekk í sókninni. Hlynur átti einn stolinn með troðslu til að svara troðslu Friðriks.

 

Annar leikhluti var dapur á að líta fyrir Njarðvík og var leikur þeirra þreyttur og stífur. Snæfellingar fengu að komast upp með allt í sóknum sínum og höfðu lítið fyrir varnarleiknum þar sem tölurnar tala greinilega sínu máli. Þegar um 2 mín voru eftir af öðrum hluta höfðu Njarðvík aðeins skorað 2 stig og skoraði ekki nema 6 stig í leikhlutanum á móti 25 stigum Snæfells sem leiddu 26-52 í leikhlé.  Hjá Njarðvík voru Friðrik og Logi með sín hvor 8 stigin og annað var ekki markvert þeim megin. Hjá Snæfelli var Siggi Þorvalds með 15 stig eins og Jón Ólafur sem var með 6 fráköst eins og Hlynur Bærings.  

Njarðvíkingar komu aðeins æstari til leiks í þriðja hluta og byrjuðu á að skora 6 stig jafnt og allann annan hluta á meðan Snæfell setti reyndar 5 og leikhlé tekið til að bretta upp ermarnar. Snæfellingar voru komnir með þægilega forystu og var jafnræði með liðunum í þriðja leikhluta. Of mikið púður þurfti fyrir Njarðvík til að komast nær og voru þeir að reyna fyrir sér með að skipta um varnartaktík og spiluðu mest 2-3 vörn í hlutanum sem gekk aðeins betur en fyrr í leiknum og unnu þeir aðeins á. Snæfell líkaði þó 20-25 stiga forystan og leyfðu Njarðvíkingum lítið að komast langt. Friðrik átti stórblokk á Hlyn undir lokin og endaði boltinn hjá Magga sem setti þristinn góða og staðan var 48-68 fyrir Snæfell fyrir lokahlutann og Njarðvík virtist ætla að koma sér í gírinn.  Njarðvík voru pirraðir þegar Siggi Þorvalds stal boltanum og Maggi braut á honum fékk dæmda á sig óíþróttamansslega villu tvisvar en Siggi driplaði áfram og Maggi braut á honum aftur og fékk þá sína aðra og var Maggi Gunnars úr leik og Njarðvíkingar misstu aðeins dampinn.

 

Snæfellingar gengu á lagið og komust í 30 stiga mun 48-78. Eftir það var aldrei spurning um sigur gestanna en njarðvík skoraði 7 stig í fjórða hluta og menn komust ekki langt á því. Ekki var meira til að telja í leiknum en að Snæfell hélt forystunni og voru fastir fyrir varnarlega á meðan ekkert gekk í þeim efnum hjá Njarðvík og ljóst að farið verður yfir varnaræfingar á næstunni. Snæfell sigraði svo örugglega 55-85 og hífa sig eitthvað upp með því Hjá Njarðvík hafa men séð betri daga en Logi setti 16 stig og Friðrik 15 stig og tók 15 fráköst. Maggi Gunnars setti 11 stig.  Hjá Snæfell var Jón Ólafur var að spila vel og var með 20 stig og 10 fráköst. Siggi Þorvalds var að venju atkvæðamikill með 21 stig. Subasic var með 17 stig og Hlynur með 15 stig og 13 fráköst og 7 stoðs.

Fréttir
- Auglýsing -