11:25
{mosimage}
Það er orðið þónokkuð síðan að maður skrifaði pistil hér á Karfan.is enda minna um afgangs tíma til að rugla og bulla þegar tímabilið er komið af stað. Verð að viðurkenna það að mig var farið að klæja verulega í puttuna. Ég hef aldrei verið sáttur við að vera kallaður Benni penni í þessum pistlum en Jón Björn ritstjóri tók sér það bessaleyfi á sínum tíma og gerði voðalega flottan banner. Var síðast uppnefndur Benni penni þegar ég var 8 ára minnir mig en menn gerðu það aldrei nema einu sinni.
Það hefur ýmislegt gerst frá maður skrifaði pistil síðast. Landið okkar nánast orðið gjaldþrota og enginn virðist ráða við neitt. Mikið mæðir á þeim sem stjórna landinu og þeir sem hafa haft yfirumsjón með peningastefnu þjóðarinnar virðast vera álíka hæfir og Leoncie að syngja. Viss um að við værum ekkert í verri málum þó svo að Lalli Johns væri bæði viðskiptaráðherra og Seðlabankastjóri. Einu sem eru í góðum málum í dag eru eggjabændur. Hér áður fyrr fóru fjölskyldur saman niður á tjörn til að gefa öndunum en núna fer fjölskyldan saman niður á Austurvöll og hendir eggjum í alþingishúsið. Ekki er ætlunin að ræða pólitík í þessum pistli en það plagar mig rosalega að enginn taki ábyrgð á einu né neinu. Starfsöryggi fólksins í landinu er
orðið álíka mikið og hjá þjálfurum þar sem enginn veit hvort hann verður með vinnu á morgun. Á meðan sitja topparnir sem fastast og ætla að setja af stað rannsókn þar sem rannsaka á hverjum þetta er allt að kenna. Ekki man ég eftir að neinni rannsókn hafi verið hrint af stað þegar körfuboltaliði hefur ekki gengið sem skyldi til að finna út hvort það hafi verið þjálfaranum að kenna, leikmönnum eða einhverjum öðrum. Ábyrgðin hefur ávallt verið þjálfarans og verður það áfram. Málshátturinn „oft er betra að ráða menn með réttu ráði en ráðamenn“ á vel við þessa dagana. Kannski er best að láta Hörð Torfa, sem staðið hefur fyrir flestum mótmælum undanfarnar vikur, taka við þjóðarskútunni. Ég treysti honum mun betur en þeim sem stjórna í dag þó svo að Hörður hafi það orð á sér að vilja fara „á bak við menn“ og koma „aftan að mönnum.“
Hinir og þessir hafa spurt mig í vetur hvort ég hafi ekki lést slatta frá síðasta vetri. Langar að nota tækifærið hér og leiðrétta svoleiðis sögusagnir. Málið er að ég er hættur að ganga með seðla á mér og farinn að nota debetkort og virka því kannski grennri fyrir vikið. Frá því ég man eftir mér hefur KR alltaf verið bendlað við mikið af peningum. KR hefur verið kallað mafían, knattspyrnufélag Reykjavíkur og nágrennis, heildsalasynir og ýmislegt fleira skemmtilegt. Ég hef alltaf haft gaman af þessum uppnefningum bæði í fótboltanum og í körfunni. Lenti í skemmilegu
atviki um daginn þegar ég var að taka bensín á bensínstöð í Reykjavík. Þar sem ég er nánast hættur að ganga með seðlabúntin á mér og komst að því að ég var ekki með kortið á mér náði ég að skrapa saman 2000- kalli og dældi sjálfur fyrir þá upphæð. Þegar ég fer inn að borga er karlmaður af erlendu bergi brotinn sem afgreiðir mig og ég segi honum að ég sé með 2000- kall á dælu 4. Hann horfir á mig með undrunarsvip og segir síðan á bjagaðri íslensku, „þú bara taka bensín fyrir svona lítið . . . .samt þú þjálfa í KR“. Þetta er greinilega eitt af því fyrsta sem erlendu vinnuafli er kennt þegar það kemur til Íslands, að KR veður í seðlum.
Í NBA höfum við séð hvern þjálfarann á eftir öðrum vera rekinn síðustu vikur. Alls 6 þjálfarar hafa fengið reisupassann og er heitt undir nokkrum til viðbótar. Það er nánast hægt að flokka þetta undir hópuppsagnir þegar svona margir fá að fjúka á svona skömmum tíma. Svona er þessi bransi bara, þjálfarar fjúka ef árangurinn er ekki sá sami og væntingarnar. Það er samt alveg með ólíkindum að allir þessir sex þjálfarar eru með sama umboðsmanninn. Spurning hvort þessi ágæti umboðsmaður fari að taka þessu persónulega. Ég lýsti leik Phoenix Suns og Miami Heat um daginn og ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum. Þvílík breyting á þessu Suns liði. Þetta hraða og skemmilega lið er orðið hundleiðinlegt. Vissulega þarf Terry Porter þjálfari að taka varnarleikinn í gegn en það hefur engan veginn tekist hjá honum. Á sama tíma hefur hann gert liðið álíka sjónvarpsvænt og félagsvist eldri borgara. Það fer ekki á milli mála að leikmenn liðsins eru langt frá því að vera sáttir. Þegar hinn geðþekki Steve Nash er orðinn ósáttur þá er eitthvað mikið í gangi. Leikmennirnir sakna DeAntoni og stuðningsmenn Suns líka miðað við þær móttökur sem hann fékk þegar Knicks sóttu Suns heima um daginn. Lakers og Boston eru í góðum málum og margt sem bendir til þess að þessi lið spili aftur til úrslita. Þykist vita að margir hér heima yrðu sáttir við það enda eiga þessi tvö lið flesta stuðningsmenn hér á gjaldþrota klakanum.
Sá leikmaður sem hefur fengið mestu athyglina það sem af er tímabili er Stephan Marburry hjá New York Knicks þrátt fyrir að hafa ekkert spilað. Þessi mannvitsbrekka hefur farið hamförum utan vallar og neitað að spila þegar eftir því hefur verið óskað. Það hefur oft verið vesen á þessum snjalla spilara og er honum gjörsamlega fyrirmunað að þroskast með árunum eins og flestir aðrir. Maður fór að velta því fyrir sér um daginn hvort hann væri með svona slæman umba sem væri svona skelfilegur ráðgjafi. Þessar stjörnur í NBA og topp íþróttamenn í öllum greinum eru oftast með "ráðgjafa" sem þeir treysta til að ákveða hvað er best fyrir sig. Það er reyndar
ekki tilfellið hjá kappanum því prófessor Marbury sér um öll sín mál sjálfur. Í mörgum tilfellum eru topp íþróttamenn með slæma ráðgjafa sem gefa þeim misgóð ráð en prófessor Marbury er skólabókadæmi um stjörnu sem þarf að hafa fjölmennt teymi af ráðgjöfum í kringum sig, helst allan sólarhringinn. Meira segja spurning um 1-2 stuðningsfulltrúa. Þeir hjá New York hafa reynt allt til að losa sig við kauða en ekkert gengið. Það er ekkert annað NBA lið sem er tilbúið að taka við svona vandræðagemsa og minnir Marbury á risa myntkörfulán sem ekki er hægt að losa sig við í dag. Knicks hafa reynt að kaupa hann út í samningi sínum og þannig hreinlega losað sig við hann en hann hefur hafnað því. Einnig hefur verið reynt að senda hann til Evrópu og halda honum sem lengst frá New York á fullum launum en ekkert af stóru liðunum hefur sýnt því áhuga að fá hann til sín. Þar á bæ vita menn hvers konar eitur hann er innan liðs. Það virðist því vera auðveldara að selja ferðagufuböð en að losa sig við doktor Marbury þessa dagana.
En snúum okkur að körfuboltanum hérna heima. Um helgina fóru fram stjörnuleikir KKÍ. Ég fékk það hlutverk að stjórna Iceland Express liðinu gegn landsliðinu í karlaleiknum. Í því liði hafa verið margir erlendir í gegnum tíðina en erlendum leikmönnum hefur heldur betur fækkað í vetur sem er hið besta mál. Ég tók þann pól í hæðina að velja 6 erlenda og 6 unga og efnilega stráka sem eiga framtíðina fyrir sér. Sá yngsti var Haukur Pálsson sem er 16 ára og var sá fyrsti efnilegi sem ég tók fyrir síðasta sumar í þessum pistlum mínum. Þess má geta að Haukur mun á milli jóla og nýárs taka þátt í móti í Róm sem heitir Junior Euroleague. Þar senda liðin í
Euroleague unglingaliðin sín og mun Haukur leika með liði heimamanna. Gríðarleg viðurkenning fyrir Hauk og veit ég að hann mun nýta þetta tækifæri vel. Stjörnuleikurinn varð þrælskemmtilegur þar sem bæði lið skemmtu sér og öðrum. Það hefði gert leikinn enn skemmtilegri ef snillingarnir Darrell Flake og Cedric Isoms hefðu verið með en þeir áttu ekki heimangengt að þessu sinni. Justin Shouse var á sínum stað og alltaf gaman að fá tækifæri til að þjálfa hann þar sem hann er topp eintak. Það hefur oft verið sagt um Justin að hann sé líkari endurskoðanda en atvinnumanni í körfubolta sem er hverju orði sannara en þrátt fyrir það er hann klárlega einn af albestu leikmönnum deildarinnar. Ég sá því miður ekki kvennaleikinn en skilst að hann hafi verið topp skemmtun líka. Ég horfði á Guðjón Skúlason taka 3ja stiga keppnina með glæsibrag þar sem hann tók yngri leikmennina í bakaríið. Guðjón var síðan tolleraður af félögum sínum og er ég viss um að kappinn hefði farið hærra upp í loftið fyrir 10 árum síðan þegar hann var ennþá að æfa. Gömlu drottningunum gekk misjafnlega vel kvennamegin og greinilega búnar að leika sér mis mikið í körfu eftir að skónum var kastað upp á hillu. Hápunktur helgarinnar var þegar þeir Jón Arnór, Logi Gunn, Logi Bergmann og Gísli Einarsson tóku 2 á 2. Ég hef aldrei á ævinni séð leikmann jafn tignarlegan á velli og með jafn glæsilegar hreyfingar og Gísli bauð upp á í þessum leik. Var snilld að fylgjast með honum í vörn og sókn. Það var talað um Jason Dourisseau sem mann helgarinnar en Gísli var klárlega maður helgarinnar að mínu mati. Þeir sem misstu af kappanum fara á kostum geta séð klippur af þessu á netinu.
Tek fyrir í lokin tvö efni sem eiga framtíðina fyrir sér þar sem ég þarf að vinna upp slappa frammistöðu mína undanfarið. Byrja á Lóu Dís Másdóttur sem nú leikur með Keflavík. Lóa er fædd 1991 og kemur frá Hvammstanga. Svakalega dugleg stelpa sem er með hárrétt hugafar. Það eru margar stelpur sem geta skorað meira en Lóa en að setja tuðruna ofan í körfuna er bara einn hlutur af mörgum sem telja í þessu öllu saman. Ég var með Lóu hjá mér á æfingum eitt sumar og sjaldan kynnst svona sterkum karakter hjá stelpu sem var ekki nema 16 ára þá. Leiðtogahæfileikar hennar koma ekki fram á neinum tölfræðiblöðum en allir vita hversu mikilvægt er að hafa öfluga leiðtoga í liðinu hjá sér. Hún er frábær varnarmaður sem getur tekið leikmenn algkörlega úr umferð. Yngri iðkendur gleyma því oft að þeir spila helminginn af tímanum á varnarhelmingi en læra það snemma að meira er eftir þeim tekið ef þeir skora í sókninni. Það þarf að ala upp fleiri Lóur í yngri flokkunum á íslandi sem hlusta á þjálfaran sinn alltaf, hvetja liðsfélaga sína, spila vörn, leggja sig ávalt fram á æfingum og í leikjum og gera alla litlu hlutina sem skilja að sigur frá tapi. Þess má geta að Lóa er náskyld Loga Gunnarsson í móðurætt og hefur góða fyrirmynd í frænda.
Kristófer Acox er KR-ingur fæddur 1993. Það hefur ekki mikið farið fyrir þessum strák þar sem hans árgangur í KR hefur nánast ekki verið til. Hann hefur verið hrár lengi vel en í dag er hann að stimpla sig inn sem einn af okkar efnilegustu strákum. Kristófer er þvílíkur íþróttamaður sem ver skot og treður með látum þegar tækifæri gefst. Eins og Lóa þá er hann ekki „go to“ maður í dag en hann spilar fanta vörn, ver skot, frákastar grimmt og er með mikla sprengju upp og niður völlinn. Hann hefur alla þá líkamlegu hæfileika sem ekki er hægt að kenna og er að taka miklum tæknilegum framförum. Óendanlegur potential. Nái hann sér í gott og stöðugt skot fyrir utan verður hann stjarna í íslenskum körfubolta áður en langt líður.
Benedikt Guðmundsson



