00:21
{mosimage}
Kópavogsdrengir í Breiðabliki skutust norður á Krók í kvöld og öttu kappi við heimamenn í Tindastóli. Gestirnir mættu aðeins með átta menn í kvöld, vegna próf anna og meiðsla. Heimamenn tefldu fram nær eingöngu heimagerðu liði, en Daninn Sören Flæng var eini ekki Skagfirðingurinn í liðinu. Byrjunarlið Tindastóls var Axel Kárason, Hreinn Birgisson, Svavar Birgisson, Ísak Einarsson og fyrirliðinn Helgi Rafn Viggósson. Hjá þeim grænklæddu hófu leik Daníel Guðmundsson, Kristján Sigurðsson, Rúnar Erlingsson, Halldór Halldórsson og Nemanja Sovic.
Leikurinn byrjaði nokkuð rólega. Svavar skoraði fjögur fyrstu stig leiksins og síðan bætti Axel við tveimur. Breiðablik svaraði með tveimur þristum sem urðu ekki þeir einu hjá þeim í kvöld. Síðan skoruðu Stólarnir 12-2 á gestina og staðan 18-8. Breiðablik lagaði stöðuna fyrir lok fyrsta leikhluta með fjórum stigum, svo staðan var 18-12. Varnarleikur beggja liða var ágætur, Axel og Helgi Rafn lokuðu vel á Sovic í sókninni hjá Breiðabliki og aðrir náðu ekki að stíga upp á meðan hjá Blikum. Svavar hjá Stólunum byrjaði vel og skoraði 7 stig í fyrsta hlutanum. Annars virkuðu menn hálfdofnir fyrstu mínúturnar og til marks um það kom önnur villan sem dæmd var ekki fyrr en á 7. mínútu.
Heimamenn héldu sínu forskoti fyrstu mínúturnar í öðrum leikhluta, en í stöðunni 25-18 virtust Stóladrengir hætta að spila körfubolta. Ekkert flæði varð í sókninni og menn misstu boltann klaufalega. Breiðabliksmenn gengu á lagið og minnkuðu muninn jafnt og þétt. Þeir komust svo yfir 27-29, en smá sprettur fyrir hlé lagaði stöðuna og Axel kom sínum mönnum yfir með síðustu
körfu fyrri hálfleiks. Stólarnir leiddu 32-31 í frekar bragðdaufum fyrri hálfleik. Nemanja Sovic vaknaði til lífsins í þessum leikhluta og skoraði tíu stig og flest gekk upp hjá honum í sókninni. Hjá Stólunum dreifðist stigaskorið nokkuð jafn.
Þriðji leikhluti byrjaði með pressuvörn af hálfu heimamanna, en hún var nú reyndar framkvæmd meira af vilja en mætti. Gestirnir áttu mjög auðvelt með að leysa hana og komust yfirleitt einir í gegn eða fengu dauðafrítt skot. Á fyrstu fjórum mínútum síðari hálfleiks skoruðu Breiðabliksmenn fjóra þrista, þar af Kristján með þrjá, en hann var sjóðandi heitur allan leikhlutann. Tindastólsmenn reyndu að halda uppi pressuvörninni, en hún gafst engan veginn og brátt höfðu Breiðabliksmenn 7 stiga forskot, 45-51. Kristján var áfram heitur fyrir gestina og kom stöðunni í 47-59. Svavar og Axel löguðu þó muninn fyrir lok þriðja leikhluta svo aðeins munaði 8 stigum, en útlitið ekki fallegt fyrir heimamenn. Eins og áður segir var Kristján Sigurðsson alveg á útopnu í þriðja leikhluta og setti niður heil 20 stig. Svavar var sá eini með lífsmarki hjá heimamönnum með 8 stig.
{mosimage}
Stólar komu heldur ákveðnari til leiks í fjórða leikhluta og eftir fjórar mínútur voru þeir komnir yfir 65-63. Breiðabliksmenn voru ekki á því að gefast upp og náðu að komast aftur yfir. Þeir leiddu svo með 1-2 stigum næstu mínútur. Í stöðunni 71-72 setti Sovic niður erfiðan þrist, Stólarnir náðu ekki að svara og Kristján braust í gegn, setti niður sniðskotið og fékk víti að auki sem hann nýtti. Blikar komnir í vænlega stöðu 71-78. Á þessum tímapunkti var Helgi Rafn kominn með fimm villur og rúmar tvær mínútur eftir. Svavar fékk boltann undir körfunni í næstu sókn Stólanna og setti niður tvö stig og fékk líka víti að auki. Hann skoraði úr því, Blikar nýttu
ekki næstu sókn og Ísak kóperaði Svabba og setti niður sniðskot og vítið sem hann fékk. 44 sekúndur eftir og munurinn aðeins eitt stig í stöðunni 77-78. Blikar fóru í sókn og Sovic sótti á Axel og náði villu á hann og tveimur vítum, en bæði lið voru kominn með skotrétt. Hann hitti úr fyrra vítinu, en klikkaði á því síðara, en Tindastólsmenn gleymdu að fara í frákastið sem Sovic hirti og setti niður tvö stig. Ísak rauk upp og fékk dæmda villu á Sovic og fór á línuna. Hann nýtti bæði vítin og enn var von fyrir heimamenn. Staðan 79-81. Hún vænkaðist heldur þegar Breiðabliksmenn tóku boltann inn því þeir misstu hann strax útaf og áttu Stólarnir hann undir körfu Blika þegar 14 sekúndu lifðu af leiknum. Þeir settu hann í leik og þegar þrjár sekúndur voru eftir fékk Rikki nokkuð opið þriggja stiga skot til þess að vinna leikinn en það geigaði, Blikar náðu frákastinu og um leið og lokaflautan gall var brotið á Rúnari Erlingssyni Breiðabliksmanni. Hann skoraði úr báðum vítunum og innsiglaði sætan sigur gestanna, 79 – 85.
Heimamenn voru frekar daprir í kvöld. Þeir virtust ætla að eiga nokkuð náðugt kvöld eftir fyrstu mínúturnar, en síðan hrökk allt í baklás og þeir voru heppnir að eiga þó sjéns á að stela sigrinum í lokin. Að sama skapi unnu Breiðabliksmenn vel fyrir sigrinum, Kristján var óstöðvandi á kafla og Sovic skilaði vel sínu. Halldór átti fínan leik og aðrir gerðu sitt. Hjá Stólunum stóðu Axel, Svavar og Ísak upp úr, en aðrir náðu sér ekki á strik.
Stigaskor Tindastóls: Svavar 23, Ísak 11, Helgi Rafn 10, Axel 9, Friðrik 9, Flæng 6, Óli 5 og Hreinn og Halldór 3 hvor. Hjá gestunum skiptust stigin þannig: Kristján 32, Sovic 25, Halldór 12, Rúnar 8, Daníel og Loftur þrjú hvor.
Dómarar kvöldsins voru þeir Kristinn Óskarsson og Einar Skarphéðinsson og var lítið hægt að kvarta yfir þeirra frammistöðu.
Texti: Jóhann Sigmarsson
Myndir: Hjalti Árnason
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}



