07:00
{mosimage}
(Telma Fjalarsdóttir)
Miðherjinn Telma Fjalarsdóttir segir Stúf vera uppáhalds jólasveininn sem er náttúrlega bara frekja í svona hávöxnu körfuknattleiksfólki þar sem Stúfur er jafnan talinn málsvari bakvarðanna. Engu að síður heldur Telma upp á Stúf og var svo góð að gangast við því að gefa okkur innsýn inn í hátíðahaldið sitt.
Borðar þú skötu á Þorláksmessu?
Nei alls ekki!
Hvað verður í matinn á aðfangadag?
Humar í forrétt og svo hamborgarhryggur, brúnaðar kartöflur og allt sem því fylgir, einsog malt og appelsín og fleira jólalegt….
Ferð þú í messu á aðfangadag?
Nei…
Hvað langar þig í í jólagjöf?
Ég væri alveg til í MacBook Air – en sætti mig alveg við eitthvað minna bara útaf það er kreppa 🙂
Áttu skemmtilega og snarpa jólasögu fyrir okkur?
Fyrir löngu síðan og frekar langt í burtu þá var jólasveinninn að gera sig kláran fyrir sitt árlega ferðalag til byggða. En undirbúningurinn gekk allur á afturfótunum. Fjórir af álfunum hans voru veikir og lærlings álfarnir, sem þurftu auðvitað að leysa hina af, bjuggu ekki leikföngin til nógu hratt svo sveinki var farinn að finna fyrir smá stressi á að standast ekki tímaáætlun.
Til að slá aðeins á stressið þá fer hann í vínskápinn sinn og ætlar að fá sér einn sterkan út í kaffið til að athuga hvort hann nái ekki að róa sig niður en sér þá að álfarnir hans höfðu komist í vínskápinn og það var ekki dropi eftir. Við að sjá það þá magnast stressið upp úr öllu valdi og hann missir kaffibollan sinn í gólfið þar sem hann brotnar í spað.
Hann fer og sækir kúst en sér þá að mýs hafa étið öll stráin á hausnum á kústnum svo hann kom ekki að neinu gagni. Þetta var nú ekki til að bæta skapið hjá sveinka og þegar hann gerði sig tilbúinn til að öskra, í þeirri von að losna við eitthvað af jólastressinu, þá hringir dyrabjallan. Hann fer til dyra og sér þar lítinn engil með stórt jólatré undir arminum.
Engillinn segir við sveinka: "Hvar viltu að ég setji þetta tré, feiti?"
………og þannig kom það til að það er hafður engill efst á jólatrénu 🙂
Hvað ætlar þú að gera yfir hátíðarnar?
Borða, sofa, hafa það kósý og kannski kíkja á einsog eina tvær æfingar ef vel liggur á…
Hver er uppáhalds jólasveinninn þinn?
Stúfur er langflottastur



