21:31
{mosimage}
Margrét Kara Sturludóttir, landsliðskona í körfuknattleik, hefur ákveðið að ganga til liðs við KR. Margrét Kara hefur dvalið vestur í Bandaríkjunum við nám en snéri heim á dögunum. Hún skrifaði í dag undir þriggja ára samning við KR og segist hlakka til að spila fyrir „stærsta og flottasta klúbb á landinu".
Margrét Kara kemur af miklu körfuknattleikskyni en faðir hennar er Sturla Örlygsson og föðurbræður hennar Teitur og Gunnar, sem allir körfuknattleiksunnendur vita deili á. Eftir að hafa stigið sín fyrstu spor í meistaraflokki með Njarðvík skipti hún yfir til Keflavíkur þar sem hún lék í þrjú tímabil. Á síðasta keppnistímabili skoraði hún um 12 stig í leik og tók 10 fráköst. Hún var valin í nýliði ársins 2006-2007 og í úrvalslið mótsins sama tímabil. Hún söðlaði síðan um síðastaliðið sumar og hóf nám við Elon háskólann þar til aðstæður breyttust nú nýverið. Það er augljóslega mikill fengur í Margréti Köru, mun hafa vafalítið styrkja lið KR.
Heimasíða KR ræddi við Margréti Köru nú í dag þar sem hún skrifaði undir þriggja ára samning við körfuknattleiksdeild KR. Þessi unga en metnaðarfulla stúlka ætlar sér greinilega stóra hluti.
Hver er ástæða þess að þú gengur til liðs við KR?
Ég er að hugsa um framtíðina, langaði að breyta til og er stolt af því að vera orðin hluti af KR. Stærsti og flottasti klúbbur á landinu og ég ætla mér að vera partur af sterku liði í Vesturbænum.
Hvernig tók pabbi þinn í að þú færir í KR, þurftir þú að fá leyfi frá honum?
Nei ég þurfti nú ekki að fá leyfi, við ræddum þetta ég og foreldrar mínir og eigum við ekki að segja að ég hafi fengið blessun hans fyrir skiptunum.
Hvað með KR liðið, hefur það ekki staðið undir væntingum í vetur?
Ég veit ekki hvort þær hafi ekki verið að standast væntingar en ég spáði a.m.k. KR í baráttunni um titilinn fyrir mót.
Þú þekkir væntanlega vel til KR-liðsins, hvernig líst þér á nýja samherja þína?
Mjög vel, ég þekki auðvitað flestar af þeim vel, sérstaklega þær sem eru með mér í landsliðinu. Systurnar, Hildur og hinar, þetta eru allt góðir leikmenn.
www.kr.is/karfa



