spot_img
HomeFréttirFlestir spá Hamri sigri í 1. deild

Flestir spá Hamri sigri í 1. deild

12:19
{mosimage}

(Ágúst Sigurður Björgvinsson þjálfari Hamars)

Fram kemur í könnun hér á Karfan.is að flestir spái því að Hamar úr Hveragerði hafi sigur í 1. deild karla þessa leiktíðina og muni því að nýju leika í Iceland Express deild karla. Í könnuninni voru lesendur inntir eftir því hvaða lið myndi hafa sigur í 1. deild og voru 31,6% sem svöruðu því að Hamar myndi koma út á toppnum. Alls voru 500 manns sem tóku þátt í könnuninni og fengu Hvergerðingar 158 atkvæði.

Valsmenn voru í 2. sæti með 74 atkvæði (14,8%) og Haukar voru í 3. sæti með 71 atkvæði (14,2%). Höttur frá Egilsstöðum fékk fæst atkvæði eða 9 talsins (1,8%).

Hamar situr á toppi 1. deildar og hefur unnið alla níu leiki sína í deildinni og er því eina ósigraða lið deildarinnar með 18 stig. Haukar eru í 2. sæti með 14 stig og hafa tapað tveimur leikjum en næst koma Fjölnir og Valur sem bæði hafa unnið 6 leiki og tapað 3.

Marvin Valdimarsson hefur farið mikinn í liði Hamars undanfarið og er með 34,71 stig að meðaltali í leik. Marvin hefur skorað 30 stig eða meira í öllum þeim 7 leikjum sem hann hefur leikið með Hamri í deildarkeppninni og er auk þess með 6,0 fráköst og 2,3 stoðsendingar í leik. Scooter Sherrill er stigahæsti leikmaður deildarinnar en hann lék aðeins einn leik með Ármanni og gerði þá 36 stig og er því kannski ekki réttborinn stigakóngur 1. deildar um þessar mundir.

Jason Pryor er í 3. sæti yfir stigahæstu leikmenn deildarinnar en hann leikur einnig með Hamri og er með 31,33 stig að meðaltali í leik í þeim sex leikjum sem hann hefur leikið fyrir Hvergerðinga.

Fátt virðist geta stöðvað Hamar um þessar mundir með Marvin og Pryor í broddi fylkingar en næsti leikur Hamars er 16. janúar þegar Ármenningar mæta í heimsókn í Hveragerði.

Þá höfum við einnig sett inn nýja könnun og að þessu sinni er spurt hvaða lið lesendur telji að hafi sigur í 1. deild kvenna þessa leiktíðina.

Mynd: [email protected]
[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -