12:30
{mosimage}
Ég vona að allir hafi haft það gott yfir jólin og átt góðar stundir með sínum nánustu. Sjálfur er ég ekkert smá sáttur að enginn leikur hafi verið á milli jóla og nýárs þetta árið. Í stað þess að vera að æfa öll jólin var hægt að taka smá frí og hlaða batteríin fyrir fjörið eftir áramót. Ég hef fengið þónokkur viðbrögð við síðasta pistli og viðurkenni að þetta með Hörð Torfa var á gráu svæði. Ég mun passa mig í þessum pistli að fara ekki yfir strikið.
Desembermánuður hefur verið erfiður fyrir marga þjálfara í IE-deildinni þetta árið. Eftir hrun bankanna héldu margir erlendir leikmenn heim á leið og í staðinn komu ungir leikmenn inn í æfingahóp félagana. Nokkrir 15-16 ára peyjar hafa meira að segja verið að fá mínútur í vetur. Það hefur því verið viðbrigði fyrir margan meistaraflokksþjálfarann að vera með leikmenn sem trúa ennþá á jólaveinana á æfingum í vetur. Þá hefur einnig reynt á uppeldishlutverk eldri leikmannanna þegar þessir yngri hafa verið að spyrja þá á æfingum hvað þeir fengu í skóinn. Gef þessum eldri leikmönnum deildarinnar stórt prik fyrir að hafa haldið pókerandlitinu þennan tíma. Sjálfur er ég öllu vanur í þessum efnum. Ég var í þrjú ár með ungt Fjölnislið þar sem nánast allir trúðu á jólaveinana. Maður hélt uppi aga með því að hóta að hringja í Grýlu ef menn væru með e-ð vesen. Ótrúlegt hvað það virkaði. Eftir að ég kom til KR höfðu foreldrar Fannars „happy Gilmore“ Ólafssonar samband við mig og tjáðu mér að þau hefðu aldrei sagt sveitastráknum sínum að jólaveinarnir væru ekki til og báðu mig um að vera ekkert að leiðrétta það. Mér brá auðvitað að heyra þetta fyrst en skildi þau síðan seinna þar sem maður finnur mikinn mun á honum í desember. Þetta er eini mánuðurinn sem hann passar sig sérstaklega að fá ekki tæknivillu þar sem jólasveinarnir eru að fylgjast með. Tæknivilla gæti orðið til þess að það yrði kartafla í skónum daginn eftir. Ég hef reynt að telja honum trú um að þeir fylgist líka með í janúar, febrúar osfv. en hann segir alltaf að þeir verði búnir að gleyma því öllu næstu jól. Þannig að maður fær Happy Gilmore aftur í liðið núna um áramótin.
Desembermánuðurinn er líka sá tími ársins þar sem allir eru sérstaklega góðir við náungan. Ég var staddur með félaga mínum í Ármúlanum þegar útigangsmaður (róni) kemur að okkur og spyr hvort við eigum e-ð klink sem við getum látið hann hafa. Eins og ég sagði í síðasta pistli þá er ég hættur að ganga með peninga á mér og því bara með kort. Ég segi þessum ágæta manni að ég væri meira en til í að aðstoða en sé bara með kort. Þá kemur hann með þessa tímamótasetningu: „lánaðu mér bara kortið og ég skila þér því eftir helgi.“ Maður hefur oft hitt útigangsmenn um ævina og aldrei hafa þeir óskað eftir að fá lánað kort til afnota. Þessi er greinilega búinn að taka betlið á næsta level. Maður var með samviskubit yfir að geta ekki gert neitt fyrir kappann en ekki kom til greina að láta hann hafa kortið þrátt fyrir að hafa skilning á lausafjárskrísu hans. Það hefur oft verið sagt um gleðikonur að þær hafi alltaf „í sig og á“ en það er því miður ekki tilfellið hjá útigangsmönnum. Svo er oft spurning hvað þessir blessuðu menn gera við peningana sem maður lætur þá hafa. Það eru mörg dæmi um það að þeir noti þá í allt annað en nauðsynjavörur. Það er misjöfn forgangsröðin hjá fólki þegar kemur að því að eyða peningum. Eins og ein knattspyrnuhetjan orðaði það skemmtilega um árið: „Ég eyddi meirihluta launanna sem ég þénaði í konur og brennivín en restinni eyddi ég í tóma vitleysu.“
Það hefur ekki farið framhjá neinum að IE-deild kvenna hefur verið einstaklega jöfn og skemmtileg í vetur. Sex lið eru ennþá að berjast um fjögur sæti í „A-deild“ og margir leikir verið virkilega jafnir. Haukar tróna á toppnum eins og er en önnur lið eru ekki langt undan. Gaman að sjá þetta Haukalið koma upp sterkt aftur. Það voru margir sem héldu að þetta yrði erfitt hjá Haukum þegar Helena fór út. Eftir lægð í einn vetur er Yngvi Gunnlaugsson búinn að búa til hörkulið. Það má ekki gleyma því að liðið missti líka Pálínu Gunnlaugsdóttur, sem var að mínu mati hjartað í Haukaliðinu á þessum tíma, Ámundadætur sem fóru í KR og síðan fór Unnur Tara Jónsdóttir út til Finnlands. Held að það séu einhverjar 3-4 stelpur eftir frá 2006. Ein af þeim er Kristrún Sigurjónsdóttir sem hefur algjörlega farið fyrir liðinu í vetur og gjörsamlega blómstrað.
{mosimage}
Ég tók eftir því fyrir einhverju síðan að Hafdís Helgadóttir hafði ekkert leikið með Val í haust og hugsaði mér að nú væri hún loksins hætt eftir langan feril. Fyrir þá sem ekki vita þá er Hafdís ekki bara mamma heldur líka amma! Hafdís verður 44 ára í janúar en ber ekki aldurinn né ömmuhlutverkið með sér og lítur út fyrir að vera ekki deginum eldri en 28 ára. Nei, Hafdís er sko ekki hætt. Hún hefur átt við meiðsli að stríða í vetur og því ekki leikið með Valsliðinu fyrr en núna í desember. Alveg magnað hjá þessari topp manneskju. Ég vona að fleiri feti í hennar fótspor. Þegar Hafdís lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir langa, löngu var Glæsibær aðal verslunarkjarninn á Íslandi og bjór var bannaður hér á landi. Rauði 500-kallinn var hæsta myntin, Ríkissjónvarpið var eina sjónvarpsstöðin og ekkert sjónvarp var á fimmtudögum. Heilu kynslóðirnar voru einmitt búnar til á fimmtudagskvöldum í þá daga. Davíð Oddsson náði kjöri sem formaður ungra sjálfstæðismanna þennan vetur og var allt í öllu hjá Heimdalli. ABBA og Elvis Presley voru að byrja að slá í gegn á heimsvísu og Austur Þýskaland vann Vestur Þýskaland í fyrsta sinn í knattspyrnulandsleik einmitt þennan sama vetur.
Margir eru að spá í hvernig útlendingamálin verði eftir áramót. Í IE-deild kvenna hafa einhver lið fengið erlenda skiptinema til að sitja á bekknum síðasta leik fyrir jól til að halda þeim möguleika opnum að geta fengið sér Kana seinna í vetur. Þetta hefur verið gert nokkrum sinnum áður í kvennadeildinni og orðin viðurkennd leið og klók. Eina sem ég hef fengið staðfest í þessari útlendingaumræðu allri er að Dimitar Karadzovski sé með tilboð frá Íslandi. Reyndar ekki frá neinu körfuboltaliði heldur heyrði ég að það væri búið að bjóða honum stöðu sveitastjóra í Grímsey, en sá sem gengdi því embætti var dæmdur fyrir stórfelldan þjófnað fyrir stuttu síðan og því vantar traustan mann í hans stað.
Það hefur væntanlega ekki komið neinum á óvart að Jón Arnór og Helena Sverrisdóttir voru útnefnd körfuknattleiksfólk ársins. Þetta er í sjötta sinn á sjö árum sem Jón fær þennan heiður og fjórða árið í röð sem Helena fær þessa nafnbót. Bæði frábærir leikmenn sem hafa náð langt með því að leggja mikið á sig. Fyrir mér á Jón líka atriði ársins en þeir sem hann þekkja vita hversu utanvið sig hann getur verið. Óli bróðir hans er svona líka og þetta hafa þeir bræður frá kallinum, Stefáni Eggertssyni lækni með meiru. Maður sem gæti þénað miljarða á sæðisgjöf en lætur ekki til leiðast. Í fyrra réð Jón sér íslenskan fjölmiðlafulltrúa þegar hann var að spila með Roma en Eiður Smári og einhverjir hafa verið með svoleiðis og gefið góða raun. Þegar Jón kemur síðan heim í haust er haldinn blaðamannafundur þar sem tilkynnt er um að Jón og Jakob ætli sér að vera heima næsta vetur og spila með sínu uppeldisfélagi. Á fundinum var múgur og margmenni en Jón gleymdi að láta blaðafulltrúann vita af fundinum sem heyrði af þessum félagaskiptum Jóns í fréttum seinna um daginn.
Í einum pistlinum í sumar fjallaði ég um góða frammstöðu Helenu síðasta vetur. Áður en ég lét þann pistil flakka velti ég mikið fyrir mér hvort það væri tímabært að fara tala um WNBA og hugsanlega setja óþarfa pressu á stelpuna. Hún hefur heldur betur sýnt það í vetur að hún hefur alla burði til að spila á meðal þeirra allra bestu, án vafa. Algjörlega frábært að sjá að hún sé að brillera leik eftir leik og undirstrika að hún er algjörlega einstök. Þessir hæfileikar Helenu hafa einn ókost og hann er að það gæti orðið erfitt fyrir hana að eignast kærasta næstu árin. Veit ekki um marga karlmenn sem eru tilbúnir að kyngja stoltinu og viðurkenna að kærastan sé betri í körfubolta og hafa tapað 21-3 í einn á einn gegn kærustunni.
{mosimage}
Enda þennan pistil á að taka fyrir yngri systir Helenu sem er þrælefnileg. Hún heitir Guðbjörg Sverrisdóttir og er fædd 1992. Virkilega hæfileikarík stelpa sem getur náð langt ef hún er tilbúin að leggja mikið á sig. Guðbjörg leikur með Haukum í IE-deildinni og er ekki nema rétt tæpum 30 árum yngri en Hafdís í Val. Hún er að standa sig vel í meistaraflokki þrátt fyrir ungan aldur. Hún hefur líkamlegu hæfileikana og leikskilninginn sem marga dreymir um en svo verður það undir henni komið hversu langt hún vill ná. Það er löngu ljóst að hún verður góður leikmaður í deildinni hér heima en vonandi hefur hún vilja og metnað til fara lengra. Ef hún fær viljann og metnaðinn sem eldri systir hennar hefur verða henni allir vegir færir. Þessi stelpa hefur verið óstöðvandi með yngri flokkum Hauka og hefur minnt á Margréti Láru Viðarsdóttur sem var aðal manneskjan í vörn, miðju og sókn ÍBV lengi vel í yngri flokkunum. Guðbjörg hefur skorað, frákastað, stolið boltum, gefið stoðsendingar og látið til sín taka í öllum þáttum leiksins. Eins og ég segi þá verður Guðbjörg góður leikmaður en með miklum metnaði á hún kost á að verða frábær leikmaður.
Benedikt Guðmundsson
Mynd af Hafdísi: [email protected]
Mynd af Guðbjörgu: Snorri Örn Arnaldsson



