16:20
{mosimage}
(Daði Grétarsson)
Breiðhyltingurinn Daði Berg Grétarsson er hættur að spila með FSu í Iceland Express deild karla og er kominn aftur á æskuslóðir og ætlar að ljúka tímabilinu með sínu gamla félagi, ÍR. Daði hefur síðasta eitt og hálfa árið verið á mála hjá FSu og á þessari leiktíð hefur hann leikið 11 leiki með FSu og gert að jafnaði 1,4 stig að meðaltali í leik.
,,Ég er kominn aftur í Reykjavíkurstórveldið ÍR en ég var ekki að finna mig á Selfossi,“ sagði Daði sem þegar hefur mætt á nokkrar æfingar með ÍR. ,,Við erum að byrja á fullu núna og ég spila t.d. með drengjaflokki ÍR í kvöld,“ sagði Daði sem er leikstjórnandi og líst nokkuð vel á möguleika sína í meistaraflokki ÍR.
,,Ég var búinn að spila ágætlega á Selfossi en hlakka bara til að byrja aftur og spila með liðnu þar sem ég byrjaði að æfa körfubolta,“ sagði Daði sem fór til Fjölnis, þaðan á Selfoss og er nú kominn aftur í Hellinn.
,,Það sem einkennir ÍR-liðið er góður hópur og ég tel að ÍR-liðið eigi eftir að spila betur og betur eftir því sem líður á tímabilið,“ sagði Daði sem verður væntanlega í eldlínunni með ÍR næsta föstudag þegar topplið KR mætir í Seljaskóla í Reykjavíkurrimmu.



