spot_img
HomeFréttirMok ? sóp ? tvígrip

Mok ? sóp ? tvígrip

16:18
{mosimage}
Kristinn Óskarsson skrifar um dómaramál.

Í síðustu viku leysti ég flókið regluvandamál með lesendum. Áður höfðum við dómarar skeggrætt það í okkar hópi og ég fengið staðfestingu á túlkun reglnanna frá tveimur virtum FIBA eftirlitsmönnum til  að lausnin orkaði ekki tvímælis. Ég hef fengið mjög jákvæð viðbrögð við skrifum mínum og er ég afskaplega þakklátur fyrir þau. Í þessari viku langar mig til að velta fyrir mér gildi hefða sem kannski stangast að einhverju leiti á við reglurnar.

Ég er ekki lögfræðimenntaður þó slíkt væri eflaust kostur við lestur körfuknattleiksreglnanna. Hins vegar veit ég að fyrir almennum dómstólum skapa hefðir og viðteknar venjur ákveðinn rétt, jafnvel í einhverjum tilfellum til jafns við lög. Stundum er talað um hefðarrétt í því sambandi.  Hvernig tengist þetta körfuknattleiksdómgæslu? Jú, upp hafa komið stöður þar sem viljandi eða ómeðvitað hefur verið litið framhjá ákveðnum brotum þar sem “allir” gera eins. Stundum verða svona tilvik til að reglum eða áherslum er breytt. En stundum ekki.

Þannig var á árum áður að á Íslandi var dæmt meira af skrefum en á meginlandi Evrópu.  Íslenskir körfuknattleiksmenn sem fóru utan kvörtuðu mikið undan því að leikmenn þar  fengju að skrefa  mikið og eins þegar erlend lið og erlendir dómarar komu til Íslands “löbbuðu” menn framhjá íslenskum varnarmönnum sem lágu óbættir hjá garði. Mikið var talað um “Evrópuskrefið” en ég hef fengið að minnsta kosti fimm mismunandi útskýringar á því hvað það var. Þetta  er ekki vandamál í dag enda hefur Evrópumönnum stórlega fjölgað hér og íslenskir dómarar hafa farið geysilega mikið til Evrópu á undanförnum 10-15 árum. Við dæmum nú skrefin eins á Íslandi og annarsstaðar, þ.e.a.s. jafn illa! Það er staðreynd að hér áður fyrr voru íslenskir dómarar að dæma “bókstaflega” eftir skrefareglunni og gerðu það að mínu mati vel, enda var ríkjandi túlkun starfandi dómara mikið áhyggjuefni hjá FIBA á þeim tíma sem ég var að byrja að starfa með þeim á árunum 1992-97.

Venjur við að dæma eða dæma ekki skref hefur orðið til þess að sumar “hefðbundnar” aðferðir til að keyra upp að körfunni eru látnar óátaldar því að “allir” gera þessar hreyfingar og “enginn” dæmir á þær þó þær séu í raun brot á skrefareglunni. Þannig eru m.a. nokkrir landsliðsmenn sem fljótt koma upp í hugann með skrefavenjur sem ekki standast  nákvæma ramma-fyrir-ramma skoðun. En meira um skref síðar þar sem þau eru efni í heila bók.

Svipaða sögu er að segja af leikbroti sem kallað hefur verið tvígrip. Reyndar finnst mér Guðna Kolbeinssyni eða þeim íslenskumanni sem þetta íslenskaði ekki hafa tekist vel upp í þýðingunni á “double dribble”, þar sem það er óheimilt að rekja knöttinn í annað sinn eftir að honum hefur verið haldið, en ekki gripinn tvisvar. Hvað með það. Þessa reglu hefur verið erfitt að íslenska en á enskunni er knattraki sagt ljúka “when the player permits the ball to come to rest in one or both hands“. Eða eins og segir í 2004 útgáfu íslensku reglnanna sem Pétur Hrafn þýddi: “Knattraki lýkur þegar leikmaður snertir knöttinn samtímis með báðum höndum eða lætur hann stöðvast í annarri eða báðum höndum”. Hér er málið “come  to rest” eða “lætur hann stöðvast”. Það að láta knöttinn stöðvast í knattraki í annarri hendinni stundarkorn en halda svo knattraki áfram er brot á þessari reglu, gjarnan kallað “mok” eða “sóp”. (dómaramerki 17).

{mosimage}

Við höfum gjarnan sé bandaríska bakverði “moka boltanum”. Í seinni tíð hefur minna verið dæmt á þetta enda hefur hagnaðarreglan sett mikið mark sitt á leikinn á liðnum árum. Þannig skal ekki dæma mok  nema sóknarleikmaðurinn hagnist á því, það er að hann komist framhjá varnarleikmanni, hindri hann í því að ná til knattarins eða skapi sér betri stöðu á annan hátt.  Þannig er leikmaður sem mokar ekki brotlegur nema hans sé vandlega gætt, enda hagnaður hans þá enginn. Þessi slaki vegna hagnaðarreglunnar hefur nú náð helst til langt að mínu mati og „hefðarréttur” u.þ.b. að myndast. Þannig er ungum leikmönnum kennd „inn-út” hreyfing sem hæglega getur talist mok. FIBA virðist vera mér sammála. 

Altént var myndbrot úr Evrópuleik sett  á lokað heimasvæði FIBA fyrir dómara sína í nóvember  þar sem dæmt var á mok „venjulegt“ atvik og dómarinn sagður gera rétt. Að þessu sögðu fannst mér afar áhugavert að sjá mok dæmt í NBA leik á jóladag fyrir litlar sakir. Reyndar hefur NBA sínar reglur, túlkanir og áherslur en minn punktur er sá að ef þeir eru farnir að taka á þessu leikbroti, sem sannarlega hefur viðgengist þar, ættum við e.t.v. að fara að skoða okkar gang.  Núna á fyrri hluta Iceland-Express deildar karla minnist ég einungis eftir að hafa dæmt þetta tvisvar og séð þetta einu sinni dæmt.

Að sjálfsögðu vil ég ennþá að hagnaðarreglan gildi og þetta skal aðeins dæmt sé sóknarleikmaður í strangri gæslu. Það er mest hætta á þessu þegar sóknarleikmaður þarf að hörfa og hvílir boltann stundarkorn í lófanum á meðan hann leggur mat á stöðuna og undirbýr stefnu- eða hraðabreytingu. Í nútíma körfubolta má sérstaklega benda á viðkvæmt augnablik þegar stór maður stígur upp fyrir boltahindrun í veg fyrir bakvörð sem hörfar eða stingur sér á milli hindrunar og þess sem stígur upp fyrir. Ég er ekki að boða byltingu, bara að benda á aðstæður  sem skapast oft í leik.

Pistlinum er ætlað að útskýra hvers vegna mok er sjaldan dæmt og benda á að leikmenn fara eins langt og dómarinn leyfir. Því tel ég að dómarar þurfi að herða tökin ofurlítið í þessum þætti leiksins og FIBA og NBA virðast sama sinnis.

Að lokum: 
Frá því ég byrjaði að dæma hefur það aldrei verið í reglunum að ekki mætti rekja knöttinn yfir axlarhæð. Sú túlkun er frá dögum Kristbjörns Alberts. og Jóns Otta. Enn eru þó dómarar að dæma á það. Hver segir svo að hefðarétturinn eigi ekki við í körfuboltadómgæslu?

Samantekt:

Leikurinn þróast og viðteknar venjur eru stundum látnar óátaldar þó þær séu á skjön við reglur.

Mok hefur á síðustu misserum lítið verið dæmt, sennilega sökum aukinnar áherslu á hagnaðarreglu. Dómarar ættu að hafa skilning á aðstæðum sem skapast í hverjum leik og leggja mat á hvort mok veiti sóknarmanni hagræði. Sé það svo er það leikbrot. Undirritaður er ekki að boða byltingu í aukningu leikbrotsins, heldur auka meðvitund allra sem að leiknum koma.

Sendi öllu körfuboltafólki mínar bestu óskir um velgengni  á nýju ári.

Kristinn Óskarsson, alþjóðlegur körfuknattleiksdómari

 

Fyrri skrif Kristins

Átti Isom að fá þrjú skot? SVARIÐ

Átti Isom að fá þrjú skot?

Af flottum troðslum

Umgjörð leikja

Af hverju er alltaf dæmt á unga leikmanninn?

Af hverju dæmir dómarinn ekki

Snertingar milli varnar- og sóknarmanns

Fréttir
- Auglýsing -