spot_img
HomeFréttirKristrún: Gaman að vera til staðar í uppbyggingunni

Kristrún: Gaman að vera til staðar í uppbyggingunni

21:21
{mosimage}

(Kristrún Sigurjónsdóttir)

,,Vissulega var það fyrsta markmið vetrarins að vera í A hlutanum þegar deildinni yrði skipt upp en það er það eina sem við höfum afrekað hingað til og að vera inni í öllum keppnum,“ sagði Kristrún Sigurjónsdóttir í samtali við Karfan.is í dag þegar hún var valin besti leikmaður fyrstu 11 umferðanna í Iceland Express deild kvenna. Kristrún hefur farið mikinn með Haukum það sem af er leiktíðinni og gerir 21,1 stig að meðaltali í leik, tekur 5,5 fráköst, gefur 3,9 stoðsendingar og stelur 3,2 boltum. Haukar eru á toppi deildarinnar með 20 stig og hafa aðeins tapað einum deildarleik.

,,Það gefur okkur ekkert að vera í toppsætinu nema að við erum öruggar í A hlutann og þarna verða þrjú önnur hörkulið,“ sagði Kristrún sem viðurkenndi að það yrði þægilegt að klára deildina í 1.-2. sæti og komast þannig hjá fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Síðan þær Helena Sverrisdóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir yfirgáfu Hauka hefur Hafnarfjarðarliðið tekið miklum breytingum og nú er Kristrún í algjöru lykilhlutverki á Ásvöllum.

,,Við misstum sterka leikmenn en ég hélt áfram og nú er maður kannski að uppskera eins og maður hefur sáð en ég get ekki sagt að ég hafi eytt neitt meiri tíma í æfingar en áður. Kannski er ég komin með meiri reynslu og það hefur eitthvað að segja að hafa verið í svona góðu liði eins og þegar Helena, Pálína og fleiri voru með okkur,“ sagði Kristrún en nú eru breyttir tímar. ,,Við erum að byggja upp nýtt lið og það er gaman að vera til staðar fyrir það,“ sagði Kristrún en ætla Haukarnir sér að vinna allt sem er í boði þetta árið?

,,Markmiðið er alltaf að vinna titla,“ svaraði Kristrún og hún finnur ekki fyrir neinni pressu um að skora sem mest í hverjum leik. ,,Stigaskorið kemur af því að leika með svona leikmönnum eins og Telmu Fjalarsdóttur og Rögnu Margréti Brynjarsdóttur sem frákasta vel en það er ekkert sérstakt markmið hjá mér eða þjálfaranum að láta mig skora mikið.“

Hvernig munu Haukar svo koma undan jólafríinu?
,,Það verður bara að koma í ljós á fimmtudag gegn Fjölni,“ svaraði Kristrún sposk.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -