spot_img
HomeFréttirHrafn: Spennandi tímar hjá okkur

Hrafn: Spennandi tímar hjá okkur

11:47
{mosimage}

(Hrafn Kristjánsson)

Þór Akureyri tekur á móti Íslandsmeisturum Keflavíkur í Höllinni fyrir Norðan í kvöld. Karfan.is náði stuttu spjalli við Hrafn Kristjánsson þjálfara Þórsara sem sagði tímana spennandi hjá Þór um þessar mundir og að mikið myndi reyna á allan  leikmannahópinn í fjarveru Cedric Isom sem er handarbrotinn.

Meistarar Keflavíkur væntanlegir í heimsókn í kvöld. Þið hafið tapað síðustu tveimur deildarleikjum og leikið á Isom í kvöld. Verður ekki á brattann að sækja?
Ætli megi ekki segja að það sé nú oftast á brattann að sækja þegar etja skal kappi við ríkjandi Íslandsmeistara, þeir eru með vel mannað lið, einstaklinga sem hafa gríðarlega þekkingu á því hvernig skal vinna körfuboltaleiki og titla. Það er okkur mikið áfall að missa Isom út og það kæmi mér svo sem ekki á óvart ef Keflavík pressaði okkur frá byrjun til að nýta sér þá staðreynd.  Við höfum undirbúið okkur undir það og vonandi gefur það góða raun. Okkar vandamál hefur verið að það hefur vantað framlag frá fleiri mönnum í leikjum og nú fá þeir menn svo sannarlega
tækifæri á að skila því. Því miður er það svo að enn ætlar hörmungarmeiðslasaga Óðins Ásgeirssonar að halda áfram en hann sleit sinar í fingri vinstri handar síðasta þriðjudag og verður varla með í kvöld þó við séum að gera okkur vonir með hægt sé að búa svo um hendina að hann geti leikið gegn Blikum í næstu viku. Þetta er grátlegt fyrir Óðinn sem var loks að verða verkjalaus í löppunum og var að ná góðri siglingu á æfingum upp á síðkastið.


Hvenær er Isom væntanlegur aftur í búning?
Það er erfitt að segja, þetta er einstaklingsbundið hvernig batinn gengur fyrir sig. Hann losnar úr gifsinu 14. janúar og þá taka við æfingar til að liðka hendina og styrkja. Bjartsýnisspá myndi gera ráð fyrir honum í búning gegn FSU 29. janúar en það er þó möguleiki að það geti frestast frekar.

Þið fenguð nýjan leikmann á dögunum, hvernig hefur honum gengið að komast inn í hópinn?

Konrad virðist góður leikmaður. Hann er mjög fjölhæfur og getur skilað boltanum í körfuna jafnt fyrir utan og eftir keyrslu að körfu. Það má segja að honum svipi nokkuð til Luka Marolt að því leyti hversu sterkan grunn hann hefur tæknilega og einnig í því hversu fjölhæfur hann er. Held þó að það sé óvarlegt að dæma hann eftir þessum fyrsta leik en hann lofar vissulega góðu það sem af er.

Þór er í suðupotti deildarinnar, neðarlega engu að síður en samt þarf ekki mikið til um þessar mundir til að færast upp um nokkur sæti, verður lokaröðunin inn í úrslitkeppnina ekki bara hjartastyrkjandi?
Það er stutt upp og niður í þessu hjá okkur þannig að þetta eru spennandi tímar. Þessir næstu leikir án Cedric koma til með reyna á hópinn en það gæti á endanum styrkt okkur mikið fyrir lok móts, að því gefnu að endurhæfing Cedrics takist vel og hann skili sér inn á fullri ferð á réttum tíma.  Það má segja að staðan sé svipuð og fyrsta ár mitt í efstu deild með KFÍ þegar Adam Spanich var látinn fara og Jeb Ivey þurfti að hverfa frá vegna veikinda á áramótum. Í það skiptið tókst að bjarga tímabilinu fyrir horn, í þetta skiptið viljum við ekki aðeins gera það heldur koma okkur upp í úrslitakeppni.

Hver er annars staðan á hópnum fyrir utan Isom?
Staðan á hópnum er ágæt. Það hefur verið tekið vel á því á æfingum og ég þykist merkja meiri grimmd innan hópsins og einbeitingu fyrir það verkefni sem bíður okkar seinni hlutann. Fyrir utan meiðsli Cedrics og Óðins er Jóhann Friðriksson frá í 6-8 vikur vegna bakmeiðsla en aðrir eru heilir og tilbúnir í slaginn.

[email protected] 

Fréttir
- Auglýsing -