spot_img
HomeFréttirTeitur byrjar vel í Garðabæ (Umfjöllun)

Teitur byrjar vel í Garðabæ (Umfjöllun)

23:53
{mosimage}

(Fannar Helgason og Guðjón Lárusson stigu villtan dans)

Stjarnan og Grindavík mættust í kvöld á heimavelli hinna fyrrnefndu, Ásgarði í Garðabæ. Var viðureignin fyrsti leikur beggja liða í seinni umferð Iceland Express deildarinnar. Fyrir leikinn var Grindavík í öðru sæti en Stjarnan var í því 10. og mátti því við fleiri stigum. Einnig var gamla kempan Teitur Örlygsson að stýra nýjum lærisveinum sínum í Stjörnunni í sínum fyrsta deildarleik.

Í fyrsta leikhluta varð strax ljóst að um hörkuleik væri að ræða og greinilegt að jólasteikin og hennar eftirmálar væru á bak og burt. Stjörnumenn komu mjög ákveðnir til leiks og leiddu nánast allan leikhlutann, utan eins stigs forystu Grindvíkinga um miðjan fjórðung. Garðbæingar spiluðu fantagóða vörn og héldu mönnum eins og Páli Axeli Vilbergssyni og Brenton Birmingham ágætlega í skefjum. Grindvíkingar héldu sér þó í leiknum og sáu alltaf til þess að Stjarnan kæmist ekki of langt fram úr. Í lok fyrsta leikhluta var staðan 29-22, Garðbæingum í vil og allt útlit fyrir ágætis skemmtun.

Sama var upp á teningnum í öðrum leikhluta. Stjarnan var í bílstjórasætinu en Grindvíkingar sáu til þess að Garðbæingar næðu ekki afgerandi forystu. Hjá Stjörnunni sýndi Justin Shouse skemmtilega takta og hjá Suðurnesjamönnum hitti  Helgi Jónas Guðfinsson ágætlega. Eftir lok leikhlutans voru Stjörnumenn með 9 stiga forystu, 53-44, og liðin gengu til búningsherbergja.

Sóknarlega séð fór seinni hálfleikur afskaplega hægt af stað, en þrátt fyrir mikla baráttu beggja liða voru aðeins sex stig skorðu samtals fyrstu 4 mínútur leikhlutans. Í stöðunni 59-48 tóku Grindvíkingar þó vænan kipp og skoruðu 17 stig það sem eftir lifði leikhlutans gegn 9 stigum Stjörnunnar. Svo virtist sem Stjörnumenn hefðu misst einbeitingu á þessum kafla og það nýttu Grindvíkingar vel og staðan fyrir síðasta leikhluta var 68-65, Stjörnunni í vil og ljóst að síðasti leikhlutinn yrði æsispennandi.

{mosimage}

Vonir áhorfenda rættust heldur betur því fjórði leikhluti var æsispennandi. Ótrúleg barátta einkenndi leik beggja liða og þrátt fyrir að Stjarnan hafi leitt lengst af voru Grindvíkingar oftast minna en 4 stigum á eftir og gríðarspennandi lokamínútur í augsýn. Þegar um fjörutíu sekúndur lifðu leiks og í stöðunni 86-83, fékk Þorleifur Ólafsson tvö vítaskot. Þau rötuðu bæði ofan í og staðan því 86-85 og spennan í algleymingi. Stjörnumenn fóru þá í sókn og virtust ætla að tefja tímann eins og unnt væri. Grindvíkingar spiluðu hinsvegar frábæra vörn og þegar skotklukkan var í þann mund að hringja tókst Justin Shouse að koma boltanum í hringinn, Fannar Helgason reyndi þá að blaka boltanum ofaní en ekki tókst það og eftir mikinn darraðardans í teignum barst boltinn til Guðjóns Lárussonar sem tókst að koma boltanum ofan í þegar 17 sekúndur voru eftir á klukkunni og staðan því 88-85 og Friðrik Ragnarsson tók leikhlé. Eftir leikhléð byrjuðu Grindvíkingar með boltann á miðju en Arnari Jónssyni urðu á þau leiðu mistök að missa boltann útaf, og boltinn því Stjörnumanna. Grindvíkingar sendu Fannar Helgason á vítalínuna og hitti hann úr öðru skotinu og staðan því 89-85. Grindvíkingar brunuðu í sókn og þegar ein sekúnda var eftir skoraði Þorleifur Ólafsson þrist og breytti stöðunni í 89-88. Justin Shouse fékk þó tvö skot þegar 0.1 sekúnda lifði leiks og gerði þar útaf við leikinn, lokastaða 90-88, heimamönnum í vil, sannarlega óvænt úrslit.

Stigahæstur Stjörnunnar var Justin Shouse með 27 stig og átta stoðsendingar en Fannar Helgason átti einnig frábæran leik með 24 stig, 16 fráköst og 3 varin skot.

Grindvíkingar hittu illa í kvöld, til að mynda var Páll Axel 0-7 í þriggja stiga skotum og Brenton 3-12, þeir voru þó stigahæstir Grindvíkinga með 20 og 21 stig, en báðir hafa þeir átt betri daga.  Þá skoraði Þorleifur Ólafsson 13 stig.

Teitur Örlygsson byrjar því mjög vel með lið Stjörnunnar en þetta var aðeins annar tapleikur Grindvíkinga í vetur.

Texti: Elías Karl Guðmundsson
Myndir: [email protected]
  

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -