spot_img
HomeFréttirPálmi: Ákváðum að byrja upp á nýtt um jólin

Pálmi: Ákváðum að byrja upp á nýtt um jólin

10:15
{mosimage}

(Pálmi Sævarsson)

Skallagrímur vann sinn fyrsta deildarsigur í gærkvöldi í Iceland Express deild karla á þessu leiktímabili þegar nýliðar Breiðabliks komu í heimsókn. Lokatölur leiksins voru 73-58 Skallagrím í vil þar sem Igor Beljanski gerði 20 stig og tók 13 fráköst en Landon Quick var með 21 stig og 14 fráköst. Karfan.is náði tali af Pálma Sævarssyni sem þurfti að fylgjast með af tréverkinu en eins og fjöldamargir aðrir leikmenn í Borgarnesi hefur Pálmi verið að glíma við meiðsli undanfarið.

,,Það er þungu fargi af manni létt og þetta var alveg geggjað og frábær frammistaða hjá þessum strákum,“ sagði Pálmi og bætti við að það væri erfiðara að fylgjast með leikjum af tréverkinu heldur en að taka þátt í þeim. ,,Ég og Hafþór ætluðum að vera með en fórum of geyst á einni æfingunni á dögunum en við ætlum að reyna að koma til baka sem fyrst, það styttist í þetta,“ sagði Pálmi en þó er einhver bið í Áskel Jónsson sem er væntanlegur í lið Skallagríms eftir 3-4 vikur að sögn Pálma.

,,Í raun var það skapið í vörninni sem var lykillinn að sigrinum en við lékum frábæra vörn frá fyrstu mínútu og það voru allir að leggja sig fram. Við náðum forskoti á Blika og þá fóru menn að hafa trú á þessu og við lékum virkilega vel og misstum aldrei trúnna,“ sagði Pálmi sem telur einnig að ákveðin hugarfarsbreyting hafi átt sér stað í Skallagrímsliðinu.

,,Menn áttuðu sig á því að við myndum ekki vinna leiki nema með því að spila vörn og við ákváðum það um jólin að byrja upp á nýtt og fyrir okkur er í raun hafið nýtt tímabil,“ sagði Pálmi sem vonaðist einnig til þess að nú færi að fjölga í Fjósinu. ,,Það var ekki fjölmennt í gær en vonandi fer fólk að týnast inn núna og hafa meiri trú á þessu með okkur, liðinu veitir ekki af því að fá áfram stuðning þó fyrri helmingur mótsins hafi ekki gengið vel.“

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -