16:00
{mosimage}
(Jóhannes Árnason)
Í kvöld dugir Jóhannesi Árnasyni og KR konum ekkert annað en sigur í DHL-Höllinni þegar Valur mætir í heimsókn í Iceland Express deild kvenna kl. 19:15. Valur hefur tveggja stiga forystu á KR en KR hefur betur sem stendur í innbyrðisviðureignum liðanna eftir nauman tveggja stiga sigur í Vodafonehöllinni fyrr á leiktíðinni. Karfan.is náði tali af Jóhannesi Árnasyni þjálfara KR sem býst við lágu stigaskori í kvöld og mikilli baráttu.
Úrslitaleikur hjá KR í kvöld þar sem ekkert annað en sigur kemur til greina! Er sjálfstraustið í botni hjá liðinu eftir stóra bikarsigurinn gegn Haukum?
Ég á von á hörkuleik í kvöld enda bæði lið með metnað til að spila í efri hlutanum núna seinni hluta tímabilsins. Ég veit ekki hvort að sjálfstraustið sé í botni en það hefur aukist eftir kærkominn sigur gegn Haukum í bikarnum. Staðan er samt sem áður sú að ekkert er unnið enn og liðið verður að leggja sig allt fram til að landa sigri í kvöld.
Við ætlum að bjóða upp á borgara fyrir leik kl 18. Þeir sem koma og gæða sér á borgara, drykk og snakki borga 1000 kall og fá frítt inn á leikinn. Það er öllu til tjaldað í dag.
Þið fenguð Margréti Köru til liðs við KR á dögunum, hefur hún haft áþreifanleg áhrif á liðið?
Já hún hefur gert það. Ég er mjög hrifinn af því hvernig hún nálgast hlutina. Hún gefur mikið af sér og fellur vel inn í okkar leik. Frábær stelpa og við erum mjög ánægðir að fá hana til liðs við okkur. Hún er hávaxin fyrir bakvörð að vera og það gefur okkur meiri dýpt.
Við hverju býst þú frá Valskonum í kvöld og hvað mun KR leggja áherslu á í leiknum?
Ég býst við lágu stigaskori, mikilli baráttu og góðum varnarleik. Við leggjum að sjálfsögðu áherslu á að stoppa þeirra bestu menn og reynum að keyra upp hraðann.
Flestir myndu segja að gengi KR fyrir jól hefði ekki verið það besta hjá liðinu, sérðu fram á breytta tíma þar?
Já gengið fyrir jól var ekki eins og við vildum og sáum fyrir okkur. Það voru vonbrigði og það er alltaf erfitt að díla við vonbrigði. Ég hef samt trú á liðinu og því sem við erum að gera. Markmiðið er að gera eitthvað stórkostlegt og það stendur. Við KR-ingar reynum okkar besta til að ná þessu markmiði og lykilatriðið er að koma öllum á sömu blaðsíðuna. Ef það tekst tel ég liðið eiga góða möguleika á að snúa við blaðinu frá því fyrir jól, enda er ég bjartsýnismaður.



