21:53
{mosimage}
(Tinna B. Sigmundsdóttir)
Tinna B. Sigmundsdóttir hefur leikið sinn síðasta leik með Valskonum í Iceland Express deildinni í bili en í næstu viku mun hún flytjast til Danmerkur sökum vinnu sinnar. Tinna var vitaskuld ósátt við stóran ósigur Vals gegn KR í DHL-Höllinni í kvöld en lokatölur leiksins voru 77-53 KR í vil. Karfan.is spjallaði við Tinnu í leikslok sem sagði kveðjustundina frekar súra í broti.
,,Þetta var frekar súrt en ég tel að þetta sé ekki munurinn á liðunum því við hefðum sjálfsagt getað gert betur en það eru ekki allir dómarar sem myndu hleypa KR upp með svona grófan leik,“ sagði Tinna sem gerði 5 stig og tók 3 fráköst í kveðjuleiknum.
,,Mér fannst við ekki í jafnvægi allan leikinn því það var töluverð harka í honum og við ekki nægilega harðar,“ sagði Tinna en hvernig líst henni á framhaldið hjá Val?
,,Þetta verður náttúrulega erfitt hjá þeim en það kemur ávallt maður í manns stað og stelpurnar geta gert hvað sem er og þær þurfa bara að hafa trú á því,“ sagði Tinna en fáum við ekki að sjá hana brátt aftur í íslensku deildinni?
,,Einhverntíman, ég verð svona eins og Hafdís. Kem aftur fertug og fersk,“ sagði Tinna á léttu nótunum en ljóst er að Valskonur munu sakna Tinnu sárlega enda annálaður baráttuhundur.



