spot_img
HomeFréttirCuban enn og aftur í vandræðum

Cuban enn og aftur í vandræðum

10:47:26
 Mark Cuban, hinn litríki eigandi Dallas Mavericks, gæti átt refsingu yfir höfði sér eftir að hafa rokið út á völlinn í leik Dallas og Denver Nuggets á þriðjudag og hellt skömmum yfir JR Smith þegar leikmenn voru á leið til búningsklefa í hálfleik.

Cuban var ævareiður Smith eftir atvik í fyrri hálfleik þar sem hinn síðarnefndi sveiflaði olnboganum í átt að Dallas-manninum Antoine Wright, án þess þó að snerta hann. NBA-deildin ákvað að refsa Smith ekki fyrir atvikið.

Nánar hér að neðan…

 

Annað gæti þó verið í spilunum fyrir Cuban, sem hefur oftsinnis komist í klandur fyrir hegðun sína á leikjum og ummæli þar fyrir utan og hefur mátt greiða hundruð þúsunda dollara í sektir.

Yfirvöld NBA eru að skoða mál Cubans og mun fljótlega koma í ljós hvort honum verði gerð refsing fyrir þetta háttalag, en áhorfendur, sem Cuban er þrátt fyrir eignarhaldið, mega ekki koma inn á leikvöllinn undir nokkrum kringumstæðum.

George Karl, þjálfari spútnikliðs Denver, var ómyrkur í máli þegar hann var spurður út í málið í gær og sagði Cuban að halda sig frá leikmönnum Denver.

„Ef þú vilt tjá þig, tjáðu þig þá við forsvarsmenn deildarinnar eða þína eigin leikmenn, en láttu leikmenn mína í friði. Þetta er ekki boðlegt.“

„Ef hann væri venjulegur áhorfandi hefði honum verið bannað að koma aftur inn í húsið og jafnvel fengið ævilangt bann á leiki. Þegar leikurinn er flautaður á er hann stuðningsmaður síns liðs. Hann má vera í hlutverki eignadans eftir leikinn, en á meðan leiknum stendur er hann bara einn af stuðningsmönnunum.“

ÞJ

 

Fréttir
- Auglýsing -