spot_img
HomeFréttirNjarðvíkingar með mikilvægan sigur

Njarðvíkingar með mikilvægan sigur


Valur Orri Valsson skilaði góðum mínútum í kvöld fyrir Njarðvíkinga
Njarðvíkingar unnu mikilvægan sigur á Stjörnunni í kvöld með 90 stigum gegn 76 í 14. umferð Iceland Express deild karla í kvöld. Sigur Njarðvíkinga var verðskuldaður og kærkomin. En það var lið Stjörnunar sem hóf leikinn betur í kvöld.

 Sem fyrr segir voru það lærissveinar Teits Örlygssonar sem komu sterkari til leiks og léku fínan bolta framan af. Vörn heimamanna var langt frá því að vera sannfærandi og gengu gestirnir á lagið. Ofaní það var skotnýting heimamanna algerlega í ruglinu og sama hvað þeir reyndu þá vildi tuðran ekki ofaní. Heimamönnum til happs var skotnýting gestanna ekki síður slök og því náðu Stjörnumenn aldrei yfirgerandi forystu í leiknum.

Í hálfleik höfðu gestirnir forystu í leiknum og höfðu til þessa neytt Njarðvíkinga í mjög erfið skot.  Það kom svo að því að skot Njarðvíkinga fóru að detta og með Magnús Þór Gunnarsson fremstan náðu heimamenn loks að komast yfir í miðjum þriðja leikhluta. Forystan var þó ekki mikil og var leikurinn mjög jafn fram í miðjan fjórða fjórðung. Þá hófu Njarðvíkingar aðra orrahríð að körfu gestanna sem skilaði þeim tæplega 10 stiga forystu. Þá forystu létu Njarðvíkingar ekki af hendi og kláruðu dæmið nokkuð yfirvegað 90-76.

 

 

Logi Gunnarsson átti fínan leik í kvöld og skoraði 23 stig. En það var Magnús Þór sem kom með bombur á réttum tíma og kveikti þann neista sem vantað hefur í lið Njarðvíkinga í vetur.  Friðrik Stefánsson var með “solid” línu, 17 stig og 12 fráköst. Einnig ber að nefna innkomu Grétars Garðarssonar af bekknum hjá Njarðvíkingum en hann skilað liðinu mjög góðum mínútum. Hjá Stjörnumönnum reyndist Jovan Zdraveski Njarðvíkingum erfiður ljár í þúfu. Kappinn setti 22 stig og ásamt Justin Shouse (21 stig 10 stoðir) var hann aðal driffjöður Stjörnuliðsins í sókninni.  Fannar Helgason var einnig sterkur með 12 stig og 12 fráköst.

Njarðvíkingar eru því í 5 sæti með Tindastólsmönnum með 14 stig og 50% vinningshlutfall en Stjörnumenn slást harðrammri baráttu um 8. og síðasta sætið inní úrslitakeppnina með 10 stig ásamt ÍR, en þeir síðarnefndu eiga leik inni sem þeir spila á morgun gegn Keflvíkingum.

Þessi lið mætast nú aftur eftir viku og þá á heimavelli Stjörnumanna í Garðabænum en þá fer fram undan úrstlit Subway bikarsins. Magnús Þór Gunnarsson var með það á hreinu hvernig sá leikur myndi fara. " Við ætlum ekki að breyta neinu nema það að stigatalan verður öfug á töflunni. Við ætlum okkur sigur og í kjölfarið í höllina. " sagði Magnús sigurreifur í leikslok í kvöld. " Leikurinn í kvöld var kaflaskiptur en þegar ég og Logi dettum í gírinn þá fellur þetta svona fyrir okkur. Án þess þó að gleyma framlaginu sem við fengum af bekknum í kvöld og frá Frikka (Stefánssonar)." bætti Magnús við.

Fréttir
- Auglýsing -