spot_img
HomeFréttirMargir flottir peyjar að æfa hérna

Margir flottir peyjar að æfa hérna

13:20
{mosimage}

(Björn í leik með ÍBV gegn Stjörnunni í Subwaybikarnum)

Hin síðustu ár hefur verið töluverður uppgangur í yngriflokkastarfinu hjá ÍBV í Vestmannaeyjum. Nýverið komst 11. flokkur félagsins í undanúrslit bikarkeppni yngriflokka en það er í fyrsta sinn sem ÍBV á lið í undanúrslitum! Karfan.is ræddi stuttlega við Björn Einarsson sem er leikmaður meistaraflokks ÍBV og yfirþjálfari yngriflokka í Eyjum en Björn er Keflvíkingur að upplagi.

,,Ég kom til Eyja í byrjun september 2005 og ástæðan var einföld. Það er alltaf gaman að takast á við krefjandi verkefni og byggja upp lið frá grunni. Ég var reyndar að stökkva blint í sjóinn með því að taka þetta að mér en þetta er búið að vera mjög skemmtilegt ævintýri og árangurinn hefur verið mjög góður,“ sagði Björn en viðurkenndi að körfuboltahefðin í Eyjum væri lítil sem engin. ,,Þetta er samt smám saman að breytast og það verður gaman að sjá ÍBV eftir 5-6 ár því hér eru margir flottir peyjar að æfa,“ sagði Björn sem telur að meistaraflokkurinn væri fyrir löngu kominn í 1. deild karla ef hægt væri að tefla fram sama liðinu í öllum leikjum.

,,Það gerist nánast aldrei hjá okkur því við náum ekki að æfa saman að neinu viti. Við náum kannski allir saman einni æfingu í viku og við teflum sjaldan eða aldrei fram sama liðinu tvo leiki í röð,“ sagði Björn sem var virkilega stoltur af strákunum sínum í 11. flokki eftir sigurinn á Grindavík í 8-liða úrslitum.

,,Í þeim leik vantaði okkur þrjá lykilmenn en nú eigum við séns á því að komast í úrslitaleikinn eins og hvert annað lið þó svo við séum í raun litla liðið og með enga hefði. Það er bara einn leikur til viðbótar í bikarnum og menn munu gefa allt í þetta því við höfum engu að tapa,“ sagði Björn og er það hverju orði sannara.

,,Uppgangurinn hjá okkur hefur verið mikill síðustu þrjú ár. Hjá okkur eru t.d. nokkrir flokkar komnir í A-riðil og 7. flokkur er sterkur á landsvísu og t.d. í 2. sæit í fyrra. Þá er 10. flokkurinn líka með fjórum sterkustu liðum landsins sem og 11. flokkurinn. Minniboltinn er líklegur til afreka og það eru margir duglegir strákar að æfa og framtíðin er björt ef menn halda áfram að æfa á þessari litlu en annars fallegu eyju,“ sagði Björn og ljóst að hann er ekki með neina heimþrá.

[email protected]

Mynd: Eyjafréttir 

Fréttir
- Auglýsing -