spot_img
HomeFréttirDæma báðum megin!

Dæma báðum megin!

16:45
{mosimage}
Kristinn Óskarsson skrifar um dómaramál.

Í síðustu viku ræddi ég um áherslur dómaranefndar og reglubreytingar FIBA um atvik þar sem olnboga er sveiflað ógætilega. Í þessari viku langar mig að ræða gamlan frasa; „dæma báðu megin“.

Dómgæsla í íþróttum byggir á nokkrum grundvallaratriðum eins og sanngirni, heiðarleika og réttsýni.  Það er dómurum mikilvægt að halda í þessi gildi og telja að sér vegið séu þeir sakaðir um annað. Eitt grundvallaratriði er þó ótalið en það er samkvæmni. Það að mat dómara sé eins í upphafi og lok leikja, gagnvart báðum liðum og jafnvel á milli leikja. Þetta er afar mikilvægt en oft afar erfitt. Hvernig fólk upplifir samkvæmni er líka afar misjafnt. Ef dómari dæmir sóknarvillu á annað liðið en ekki sóknarvillu á líkt atvik hinum megin gæti þannig verið merki um ósamkvæmni í dómgæslunni. Eða ekki. Kannski beitti dómarinn einmitt sömu túlkun um löglega varnarstöðu, í anna sinnið gerði varnarmaðurinn allt rétt en í seinna skiptið færði hann sig lítillega áfram og gerðist þannig brotlegur. Þannig má segja að dómarinn hafi verið „samkvæmur  sjálfum sér“ í mati þessara tveggja atvika.

Ég man þegar John Rhodes gaf sig einu sinni á tal við mig og ræddi um dómgæslu. Hann sagði: „ég ætlast ekki alltaf til að þið séuð góðir, en ég ætlast til að þið séuð alltaf eins“. Þetta er að sjálfsögðu það sem dómarar eiga að stefna að. Stöðugleiki og samkvæmni eru meðal þeirra atriða sem skilur bestu dómarana frá hinum. Jafnvel umdeildir dómarar geta notið virðingar fyrir þessi atriði þegar þeir taka erfiðar óvinsælar ákvarðanir geta hlutaðeigendur verið alveg vissir að viðkomandi tæki sömu afstöðu sama hver annar ætti í hlut.

Vissulega kemur það fyrir í leikjum að einhverjum finnst á sig hallað. Oft á það sér einhverjar eðlilegar skýringar í einsleitu sjónarhorni viðkomandi, en einnig getur um það verið að ræða að nokkrar ákvarðanir dómara hafi fallið óheppilega og í einhverjum tilfellum ítrekað bitnað á öðru liðinu. Slíkt er auðvitað afleitt. Versta sem dómari gerir í slíkum tilfellum er að reyna að bæta skaðann upp að einhverju leiti með „make-up-call“. Þá er dómarinn að fjölga mistökum sínum en ekki að bæta fyrir þau. Það góða við okkar opna og heiðarlega samfélag á Íslandi er að ég get fullyrt að mistök körfuknattleiksdómara eru heiðarleg mistök en ekki byggð á neinum annarlegum sjónarmiðum. Sem betur fer. Hættan á að fólk fari illa með vald sitt í hvaða starfsstétt er hins vegar alltaf fyrir hendi og því þarf aðhald og eftirlit gagnvart körfuknattleiksdómurum eins og öðrum starfstéttum sem fara með völd.  Félagsmenn í KKDÍ hafa brugðist við þessu með því að taka upp og samþykkja siðareglur. Í þeim felst afdráttarlaus yfirlýsing um heiðarleg vinnubrögð og hollustu við leikinn sjálfan og dómaraforustuna.

Þegar blöðin eru skoðuð að morgni dags eftir leiki má finna þar yfirlit um leikina, stigahæstu menn, þróun stiga og slíkt. Þar má gjarnan lesa fjölda villna á liðin. Hvað segir slík tölfræði okkur? 

Tökum dæmi. 
Lið A fékk dæmdar á sig 25 villur en lið B 14. Má draga þá ályktun að lið A hafi leikið fastar en lið B? Eflaust. En allir vita að það geta verið 100 mismundandi breytur sem hafa áhrif á villu dreifinguna. En þegar síst skyldi skipta þau rök engu máli þegar maður vill nota þennan tölfræðiþátt til að leggja áherslu á málstað sinn. Þá koma köll á borð við „dæma báðu megin“.   Oft fara þjálfarar í að koma skilaboðum á framfæri með óbeinum skilaboðum, eða að tala undir rós. Stundum hefur mér fundist að íþróttafréttamenn leyfi þeim oft að komast upp með slíkt.  Dæmi um þetta gæti verið þjálfari sem segir eftir tapleik „heimavöllur þeirra er greinilega sterkur því þeir fengu 16 vítaskot á lokakaflanum en við bara tvö“.  Hvernig á að túlka svona ummæli?

Það má og á að gangrýna dómgæslu. Slík gagnrýni þarf að mínu mati að uppfylla tvennt. Að reynt sé að færa rök fyrir gagnrýninni og að gagnrýninni sé komið á þann hátt á framfæri að hún geti leitt til þess að bæta ástandið, að dómgæslunni geti farið fram í kjölfarið. Að telja villur er sjaldan gagnlegt í þeirri umræðu.

Dómarar eiga að hafa samkvæmni að leiðarljósi, ekki að dæma jafnt á bæði lið heldu leggja sama mat á öll atvik.

Samantekt:
Dómgæsla í íþróttum byggir á nokkrum grundvallar atriðum eins og sanngirni, heiðarleika og réttsýni.
Samkvæmni er afar mikilvægur þáttur í dómgæslu í körfuknattleik.
Villufjöldi liða segir lítið um samkvæmni dómgæslunnar.

Með bestu kveðjum,
Kristinn Óskarsson, alþjóðlegur körfuknattleiksdómari

Fyrri skrif Kristins

Er að finna til vinstri á forsíðu karfan.is undir liðnum „Dómaramál með K.Ó.“

Fréttir
- Auglýsing -