18:51
{mosimage}
(Loftur í leik með Blikum gegn ÍR fyrr á þessari leiktíð)
Loftur Þór Einarsson hefur sungið sitt síðasta í bili með Breiðablik í Iceland Express deild karla. Loftur var að byrja í nýrri vinnu sem fer illa saman með körfuboltanum. Þetta er töluverð blóðtaka fyrir Blika enda Loftur annálaður baráttujaxl. Til stóð að Loftur myndi hætta í körfubolta fyrir yfirstandandi leiktíð en hann snéri aftur þegar erlendum leikmönnum tók að fækka.
,,Nýja starfið mitt fer ekki saman með körfunni. Nú er ég kominn í nýtt lið, slökkvilið,“ sagði Loftur, verðandi slökkviliðsmaður, sposkur sem ætlar kannski að mæta eitthvað áfram á æfingar hjá Blikum til að berja á mönnum. ,,Ég á ekki von á því að vera með í fleiri leikjum í vetur en ég ætlaði að hætta fyrir þessa leiktíð en svo voru margir erlendir leikmenn sendir heim svo ég mætti á staðinn,“ sagði Loftur sem leikið hefur 12 deildarleiki með Blikum og gert í þeim 3,1 stig að meðaltali í leik og tekið 2,1 fráköst.
,,Þetta er búið að vera mjög gaman og skemmtilegt að hafa svona hálf útlendingalausa deild. Ég hef ekkert á móti erlendum leikmönnum en nú hafa margir fengið tækifæri og það eru t.d. margir leikmenn í 1. deild sem hefðu átt að vera í úrvalsdeild í vetur,“ sagði Loftur en telur hann að Blikum takist að halda sæti sínu í úrvalsdeild án hans aðstoðar?
,,Já, þeir halda sætinu sínu í deildinni, ég er ekki í nokkrum vafa um það. Þorsteinn Gunnlaugsson er kominn aftur en hann er mjög sterkur leikmaður. Þorsteinn er meiri skorari en ég en til að segja eins og er þá hef ég aldrei getað neitt í körfubolta. Ég hef alltaf látið finna fyrir mér og tekið mikið pláss,“ sagði Loftur léttur í bragði.



