18:22
{mosimage}
(Það var frábær stemning í DHL-höllinni í dag)
KR mun leika til úrslita um Subwaybikarinn eftir 82-70 sigur á Grindavík í magnaðri undanúrslitaviðureign liðanna í DHL-Höllinni í dag. KR tók forystuna snemma leiks og hélt henni allt þar til lokaflautan gall. KR vörnin var þétt og setti Grindavík oft og tíðum í töluverð vandræði. Frábær stemmning var í Vesturbænum og fullt í hverju einasta sæti rúmum hálftíma fyrir leik. Erpur Eyvindarson hitaði vel upp í fólki með nokkrum rapplögum fyrir leik og þegar öllu var á botninn hvolft var dagurinn hinn glæsilegasti fyrir KR í alla staði, umgjörðin frábær, stemmningin glimrandi og enn einn sigurinn í hús hjá KR maskínunni sem virðist ekki vera líkleg til að stíga feilspor á næstunni.
Sökum rangrar skráningar á leikskýrslu var Jón Arnór Stefánsson ekki í byrjunarliði KR sem verður að viðurkennast að er bara nokkuð hjákátlegt en kappinn var ekki lengi utan vallar og kom inn í leik KR við fyrsta tækifæri og lét vel að sér kveða að vanda.
Jason Dourisseau opnaði leikinn með sveifluskoti í teig Grindavíkur en landi hans Nick Bradford jafnaði metin fyrir Grindavík í 2-2 og fyrstu 9 stig leiksins voru í boði Bandaríkjanna uns Fannar Ólafsson kom Íslandi á kortið og KR í 7-4. Vörn KR var hrikalega sterk frá upphafi leiks og gerðu 10 stig í röð á meðan allt gekk á afturfótunum hjá Grindavík og staðan 15-4. Þeir Brenton og Páll Axel gerðu svo tvo þrista fyrir Grindavík og minnkuðu muninn í 18-12 en KR-ingar létu það ekki á sig fá og gerðu 8 síðustu stig leikhlutans sem lauk í stöðunni 26-12 fyrir KR. Vörn Grindvíkinga var fremur máttlítil í fyrsta leikhluta á meðan heimamenn léku af miklum krafti. Skarphéðinn Ingason var í byrjunarliði KR fyrir Helga Má Magnússon sem kom grimmur inn í annan leikhlutann.
{mosimage}
(Jón Arnór Stefánsson var einn fjölmargra KR-inga sem spilaði vel í dag)
Helgi Már opanaði annan leikhluta fyrir KR með glæsilegri hreyfingu á blokkinni að hætti Kevins McHale er hann fíflaði Brenton Birmingham upp úr skónum og lagði svo boltann í netið. Njarðvíkingurinn Gunnar Þorvarðarson, faðir Loga Gunnarssonar, var þekktur fyrir viðlíka tilburði og gaman að sjá leikmenn í dag brydda upp á þessum ,,eldri“ hreyfingum. Helgi hélt áfram að hrella menn á borð við Helga Jónas og Þorleif á blokkinni og gerði þar fjögur stig í röð.
Snemma í öðrum leikhluta fékk Arnar Freyr Jónsson sína þriðju villu í liði Grindavíkur en mikið var flautað í fyrri hálfleik og alls dæmdar 26 villur. Nick Bradford var allt í öllu í sóknarleik Grindavíkur og minnkaði muninn í 35-26 en Jón Arnór Stefánsson kom KR aftur á rétta braut með þriggja stiga körfu og staðan 38-26 fyrir KR. Fannar Ólafsson barðist af miklu afli í fyrri hálfleik og uppskar þar nokkra stolna bolta en marga setti hljóða þegar Jón Arnór Stefánsson brunaði upp völlinn og ætlaði að troða með tilþrifum. Brenton Birmingham kom þá aðvífandi og varði tilraun Jóns en uppskar virkilega ósanngjarna villu fyrir vikið og létu stuðningsmenn Grindavíkur vel í óánægjuröddum sínum heyra.
{mosimage}
(Arnar Freyr Jónsson að keyra að körfunni – Darri Hilmarsson til varnar)
Guðlaugur Eyjólfsson kom sterkur inn af tréverkinu fyrir Grindavík og skoraði fimm stig og staðan 48-35 fyrir KR og þannig stóðu leikar í hálfleik. Jón Arnór var með 12 stig hjá KR í hálfleik og þeir Fannar Ólafsson, Jason Dourisseau og Helgi Magnússon voru allir með 9 stig en hjá Grindavík var Nick Bradford með 15 stig í hálfleik sem hafði séð 26 villur og ljóst að bæði lið myndu glíma við villuvandræði í síðari hálfleik.
Vörn Grindavíkur var mun betri í upphafi síðari hálfleiks og gerðu gestirnir fjögur stig í röð og minnkuðu muninn í 48-39. Páll Axel Vilbergsson var algerlega heillum horfinn og fær Jason Dourisseau hæstu einkunn fyrir þá vörn sem hann lék gegn Páli. Það kom því í hlut Nicks Bradford og Brentons Birmingham að draga sóknarvagn Grindavíkur og gekk það nokkuð brösuglega gegn sterkri vörn KR.
Jón Arnór hélt KR í bílstjórasætinu með þriggja stiga körfu og staðan 58-45 en Jón Arnór var í algerum sérflokki á vellinum í dag með grimmum varnarleik og skemmtilegum sóknartilþrifum. Staðan var 62-50 þegar þriðja leikhluta lauk og enn spennuleikur í gangi en samt fátt sem benti til þess að gestirnir næðu að hleypa leiknum upp.
{mosimage}
(Helgi Már Magnússon kom sterkur af bekknum fyrir KR í dag og skoraði 13 stig)
Snemma í fjórða leikhluta komst KR í 70-54 en Grindvíkingar komust aftur nærri og í stöðunni 74-62 fékk Jason Dourisseau sína fimmtu villu og varð frá að víkja í liði KR. Snögglega týndust þeir Helgi Már og Jón Arnór útaf einnig með fimm villur en það kom ekki að sök og KR kláraði leikinn með 12 stiga sigri, 82-70.
Ósigrað lið KR er sannkölluð maskína og strax frá fystu mínútu voru röndóttir klárir í slaginn og náðu að ýta gestum sínum ansi oft út úr þeirra aðgerðum. Fátt annað bendir til þess en að KR-ingar séu þegar orðnir Subwaybikarmeistarar en eins gjarnan er kveðið á svona stundum þá er þetta bikarinn og þar getur allt gerst.
Nokkrir punktar:
– Fullt var í sæti í DHL-Höllinni rúmum hálftíma fyrir leik.
– Erpur Eyvindarson hitaði vel upp í mannskapnum og rappaði sig alla leið upp í stúku.
– Jón Arnór varð að fara út af og byrjaði ekki inn á samkvæmt tilmælum dómara? Pálmi kom inn á í hans stað, ruglingur á skýrslu olli þessu en Jón var ekki lengi á bekknum og kom inn í leikinn við fyrsta tækifæri.
-Grindavík tapaði fimm boltum fyrstu fimm mínútur leiksins.
-Miðjan, stuðningsmannahópur KR, söng ,,Fleiri kana, fleiri kana“ og héldu þar uppi ,,kani eða ekki kani“ þrætuepplinu sem Grindavík og önnur lið á Íslandi hafa gætt sér á með KR.
-KR tók 42 fráköst í leiknum á meðan Grindavík tók aðeins 27.
-Grindavík hitti aðeins úr 14 af 23 vítaskotum sínum.
{mosimage}
(Augu áhorfenda í DHL-höllinni beinast að Jason Dourisseau)



