09:00
{mosimage}
(Teitur messar yfir liðsmönnum sínum í Stjörnunni)
Teitur Örlygsson og leikmenn hans í Stjörnunni fá í dag tækifæri til þess að kvitta fyrir deildartap Stjörnunnar gegn Njarðvík fyrir skemmstu er liðin mætast í undanúrslitum Subwaybikarsins kl. 19:15 í Ásgarði í kvöld. Þetta er í fyrsta sinn sem Stjarnan kemst í undanúrslit bikarkeppninnar en liðið er á sínu þriðja ári í úrvalsdeild. Teitur gerði garðinn frægan á sínum tíma með Njarðvíkingum og er einhver ástsælasti leikmaður þjóðarinnar og verður forvitnilegt að sjá hvort hann hafi sigurspilin á höndum gegn sínu gamla félagi.
Á að nýta tækifærið núna og koma fram hefndum fyrir deildarósigurinn gegn Njarðvík á dögunum?
Við munum reyna allt og æfingarnar hjá okkur hafa gengið vel í vikunni. Hér eru nokkrir að jafna sig af meiðslum en við ætlum bara að mæta í dag á heimavöllinn og berjast en við höfum verið að spila ágætlega í Ásgarði.
Hvað er það sem Stjarnan þarf að bæta frá síðasta leik liðanna?
Við getum bætt okkur á öllum sviðum því við spiluðum virkilega illa og þetta var svona lakasti leikurinn okkar síðan ég tók við liðinu og hver einasti leikmaður og þar með ég talinn getum bætt okkur. Við mætum ákveðnir til leiks og ætlum að gefa allt í þetta.
Ætla Garðbæingar að fjölmenna á völlinn?
Ég er ekki búsettur í Garðabæ en ég vona það svo sannarlega. Það er búið að vera ágæt mæting á heimaleikina okkar undanfarið og við höfum verið að vinna þá svo það ætti bara að fjölga í stúkunni í kvöld en ekki fækka.
Getur þú lofað Garðbæingum að þeir séu á leið í Laugardalshöll?
Nei nei, ég geri það aldrei. Ég get lofað þeim að við gerum okkar besta og að vonandi bætum við okkur það mikið að það geti fleytt okkur áfram í keppninni.



