11:00
{mosimage}
(Valur Ingimundarson)
Njarðvíkingar mæta Stjörnunni í Ásgarði í kvöld í undanúrslitum Subwaybikarsins og það lið sem hefur sigur mun leika til bikarúrslita gegn KR. Stjarnan leikur sinn fyrsta undanúrslitaleik í bikarkeppni KKÍ en Njarðvíkingar eru þessum leikjum kunnugir og segir Valur Ingimundarson þjálfari Njarðvíkinga ekki loku fyrir það skotið að nýr liðsmaður verði í grænu í kvöld, það komi hreinlega í ljós í Ásgarði.
Eru allir klárir í slaginn?
Já, maður má ekki vera að væla, er það? Við verðum bara klárir og það spáir enginn í meiðslum og svona á þessum tíma en við erum að sjá fram á leik sem við áttum kannski ekki von á að vera í og þetta er bara spurning um dagsformið í s.b.v. hvort liðið komist í Höllina. Helmingurinn eða meira í mínu liði hefur ekki komist nálægt svona leik og við vitum að við eigum séns en þurfum að eiga góðan leik til að komast alla leið. Stjarnan hefur ekki tapað heima síðan fyrir jól og spurning hvort við getum stöðvað þá í Garðabænum.
Þið höfðuð betur í Ljónagryfjunni í deildarleiknum á dögunum en Stjarnan hefur aldrei spilað svona leik áður, mun það skipta máli?
Kjarninn í Stjörnunni hefur spilað svona stóra leiki, ÍR-ingarnir og útlendingarnir þeirra hafa spilað stóra leiki og hinir í liðinu hafa spilað í mörg mörg ár svo þetta eru engin börn hjá þeim. Það er hægt að segja að liðin standi nokkuð jafnfætis hvað þetta varðar og ekki hægt að segja að það sé meiri pressa á öðru liðinu en hinu.
Hvað var það sem gaf vel í leiknum ykkar gegn Stjörnunni í Njarðvík?
Við spiluðum vörn og náðum að halda þeim í 76 stigum og það gerði útslagið en hvorugt liðið var að spila neitt frábæran sóknarleik.
Eruð þið að bæta við ykkur mannskap?
Það eru litlar líkur á því að það verði kominn inn nýr maður fyrir þennan leik en við erum enn að reyna að breikka hópinn okkar og minnka álagið á þeim sem eru líka að spila í yngri flokkum. Það ætti ekki að koma neinum á óvart ef það er viðbót í okkar hóp en líkurnar eru ekki miklar.
Hvernig leggst leikurinn í þig?
Bara vel, Njarðvík hefur gert góða hluti í vetur og við höfum allt að vinna í þessum leik og engu að tapa, ekki neinu! Það eru allir mjög sáttir við það að eiga möguleika á því að fara í Höllina og mikið sem liggur undir í kvöld.



