22:46:19
Ekki er ein báran stök hjá veslings Eddy Curry, miðherja NY Knicks. Eftir að hafa gengið í gegnum ýmislegt á ferli sínum, m.a. meiðsli, erfiðleika með að halda sér í formi, verið rændur af manni vopnuðum byssu og nú fyrir skemmstu lögsóttur vegna kynferðislegrar áreitni og kynþáttahaturs, er hann og fjölskylda hans harmi slegin eftir að barnsmóðir hans og fyrrum kærasta fannst látin af völdum skotsára í gær.
Nánar hér að neðan…
Nova Henry og Curry áttu 3ja ára dreng saman, en leiðir þeirra skildu fyrir nokkru. Hún átti níu mánaða dóttur sem var einnig látin á vettvangi, en sonur Currys var ómeiddur í íbúðinni.
Samkvæmt óstaðfestum fregnum er maður sem Henry hætti nýlega í sambandi með grunaður um glæpinn, en hún fékk nýlega nálgunarbann á hann.
Í tilkynningu frá Curry og Knicks var lýst yfir gríðarlegri sorg með þennan hryllilega atburð og sagt að bænir Curry og fjölskyldu hans væru með aðstandendum Henry, en fjölmiðlar voru beðnir um að taka tillit til fjölskyldnanna á þessum erfiðu tímum.
ÞJ



