08:57:09
LA Lakers festu sig enn betur í sessi sem besta liðið í Vesturdeild NBA þegar þeir lögðu San Antonio Spurs örugglega að velli í toppslag í nótt. Reynsluboltarnir í San Antonio höfðu verið að koma sterkir inn í allan vetur, sérstaklega eftir að Manu Ginobili og Tony Parker sneru aftur úr meiðslum og unnu m.a. Lakers ekki alls fyrir löngu. Kobe Bryant og félagar voru þess vegna alveg tilbúnir til að hefna og gerðu það með miklum stæl þar sem Kobe, Pau Gasol og fleiri gátu hvílt allan fjórða leikhlutann.
Á meðan voru Boston Celtics að vinna áttunda leikinn í röð, nú á móti Dallas Mavericks, og virðast vera búnir að komast út úr jólakreppunni þar sem þeir gátu varla keypt sér sigur á tímabili.
Þá unnu Houston, án Yao Mings, góðan sigur á Detroit, Denver vann Utah, Golden State lagði Clippers í botnslag í vestrinu á meðan Indiana vann Charlotte í botnslag í austrinu, Toronto vann Sacramento, Phoenix vann Atlanta og lærisveinar Kevins McHale í Minnesota unnu enn einn sigurinn, nú gegn lánlausu liði Chicago.
Úrslit næturinnar hér að neðan…
Dallas 100
Boston 124
San Antonio 85
LA Lakers 99
Sacramento 97
Toronto 113
Phoenix 104
Atlanta 99
Houston 108
Detroit 105
Chicago 108
Minnesota 109
Charlotte 93
Indiana 98
Utah 97
Denver 117
LA Clippers 92
Golden State 107
ÞJ



