8:36
{mosimage}
Annar hluti Iceland Express deildar kvenna hefst í kvöld með þremur leikjum. Í A riðli tekur Keflavík á móti Hamri en í B riðli tekur Valur á móti Fjölni og Grindavík á móti Snæfell. Allir leikirnir hefjast klukkan 19:15.
Keflavíkurstúlkur hafa haft nokkuð gott tak á Hamri í vetur og með sigri í kvöld fer Keflavík langt með að tryggja sér annað af tveimur efstu sætum A riðils.
Sigri Valur Fjölni í kvöld fara þær langleiðina að því að tryggja sér sæti í úrslitakeppni en Fjölnisstúlkur þurfa nauðsynleg á öllum sigrum að halda til að bjarga sér frá falli.
Grindavík og Snæfell hafa att kappi tvisvar í vetur og hefur Snæfell unnið í bæði skiptin. Sigri Snæfell í kvöld er liðið komið upp fyrir Grindavík og þá er baráttan um síðasta sætið í úrslitakeppninni orðin nokkuð spennandi. Fari hins vega svo að Grindavík sigri þá stíga þær stórt skref í átt að úrslitakeppninni.
Í 1. Deild karla er svo einn leikur, Suðurlandsslagur á milli Laugdæla og Þórs frá Þorlákshöfn. Laugdælir hafa einungis unnið einn leik í vetur og eru að berjast fyrir veru sinni í deildinni en Þór kom á óvart í síðasta leik og vann Hauka. Þeir eru því á fullu í baráttunni um að komast í úrslitakeppnina. Leikur liðanna hefst klukkan 20 á Laugarvatni.
Það verður því mikið í húfi á völlum landsins í kvöld.
Mynd: Þorsteinn



