08:55:54
Topplið NBA deildarinnar, LA Lakers, mátti í nótt sætta sig við niðurlægjandi tap á heimavelli fyrir Charlotte Bobcats. Leikurinn var æsispennandi og réðust úrslitin ekki fyrr en eftir tvær framlengingar. Þrátt fyrir að Charlotte hafi aldrei verið hátt skrifað, er þetta engu að síður fimmti sigur þeirra gegn stórveldinu í síðustu sex viðureignum liðanna. Lakers léku seinni framlenginguna án Kobe Bryants sem fékk sína sjöttu villu undir lok þeirrar fyrri.
Bryant var með 38 stig fyrir Lakers, Andrew Bynum var með 24 stig og 14 fráköst og Pau Gasol átti sennilega sinn versta leik síðan hann skipti yfir í gult, en hann skoraði bara 10 stig og var með hræðilega skotnýtingu.
Boris Diaw var með 23 stig, níu fráköst og níu stoðendingar fyrir Bobcats, Raymond Felton bætti við 22 stigum, 11 fráköstum og níu stoðsendingum.
Bobcats voru við stjórnvölinn þegar lítið var eftir af venjulegum leiktíma, en fóru illa að ráði sínu, misnotuðu fimm víti á síðustu 2 mínútunum og gáfu Lakers færi á að jafna.
Eftir leikinn sagði Phil Jackson, þjálfari Lakers að hans menn hefðu ekki átt skilið sigur í þessum leik og raunar verið heppnir að komast í framlengingu. „Þeir þurftu að klikka á vítunum til að við kæmumst inn í leikinn, en stundum nær réttlætið farm að ganga og ég held að það hafi verið tilfellið í þessum leik.“
Á meðan Lakers töpuðu svo illa gekk öðrum toppliðum allt í haginn, en Cleveland, Orlando, San Antonio og Denver unnu öll leiki sína í nótt.
Úrslit næturinnar hér að neðan…
Indiana 111
Orlando 135
Sacramento 110
Cleveland 117
Denver 100
Memphis 85
San Antonio 107
Utah 100
Charlotte 117
LA Lakers 110
ÞJ



