spot_img
HomeFréttirKeflavíkin reynist Hamars stúlkum erfið

Keflavíkin reynist Hamars stúlkum erfið

Keflavík sigraði Hamar enn og aftur á heimavelli  sínum í gærkvöldi með 92 stigum gegn 83. Leikur þessi var fyrsti leikurinn í A-riðli Iceland Express deildarinnar.  Keflavíkur liðið var nokkuð öruggt allan tímann með sigur ef undan er skilin smá kafli þar sem Hamar náði að minnka muninn niður í 5 stig í síðasta fjórðung en þar með var bensínið búið á tankinum og Keflavík kláraði með sigri

Fyrstu mínúturnar voru gestirnir nokkuð sprækir og ætluðu sér alls ekki að tapa í þriðja skiptið fyrir Keflavík á stuttum tíma. Jafnt var með liðum framan af leik en undir lok fyrsta leikhluta kom sterkur kafli hjá heimastúlkum og komust þær í 9 stiga forystu. Keflavíkurpressan reyndist svo Hamarsstúlkum erfið og virtust þær alls ekki ráða við þá ákefð og eljusemi sem heimaliðið sýndi. Hvað eftir annað gerðu gestirnir sig seka um mistök sem að heimaliðið nýtti vel og fór með 15 stiga forskot í veganesti til hálfleiks.

Þriðji fjórðungur var nokkuð jafn þar sem að vörn heimamanna slakaði örlítið á ólinni.  Það var svo í fjórða fjórðung að Hamar náði að saxa vel á forskot heimamanna og minnstur varð munurinn 5 stig þegar um 4 mínútur voru til leiksloka. En þá skelltu Keflavíkurkonur í lás, Birna Valgarðsdóttir setti niður 2 þrista og úti var ævintýri gestanna.  Sem fyrr segir nokkuð öruggur og verðskuldaður sigur heimastúlkna sem verma nú annað sæti deildarinnar.

Birna Valgarðsdóttir átti flottan leik í gær þegar hún setti niður 31 stig (20 í hálfleik)  Birna er svo sannarlega búin að koma sterk til mótsins í ár og er að eiga frábært tímabil. Pálína Gunnlaugsdóttir átti einnig mjög góðan leik, skoraði 18 stig og sendi  7 stoðsendingar. Hjá Hamar var Julia Dermirer í sérflokki þegar hún skilaði 34 stigum og reif niður 27 fráköst, og í heildina var hún með 54 stig í framlag fyrir sitt lið.

Tölfræði leiksins

Mynd/Texti: SBS

Fréttir
- Auglýsing -