spot_img
HomeFréttirOrlando lagði Cleveland í toppslag austursins

Orlando lagði Cleveland í toppslag austursins

09:20:18
Magic festi sig endanlega í sessi sem eitt af stórliðum Austurdeildarinnar með sigri á Cleveland Cavaliers í nótt, 99-88. Dwight Howard og Jameer Nelson voru sem fyrr burðarásarnir í liði Orlando, en LeBron James hefur átt mun betri leiki fyrir Cavs, sérstaklega þar sem hann var ekki að skjóta vel.
Cavs byrjuðu raunar betur, en Orlando náði fljótt undirtökunum og sigldu öruggum sigri heim í hlað á meðan leikmenn og þjálfarar Cleveland eyddu miklum tíma í að þrasa í dómurunum.
Eftir leikinn er Orlando einungis einum leik á eftir Cleveland, sem vermir annað sætið í Austrinu, en Boston færðist á toppinn með tapi Cleveland.
Í seinni leik næturinnar unnu San Antonio Spurs mikilvægan sigur á Phoenix Suns, en bæði liðin eru að berjast um sem best sæti í úrslitakeppninni í vor. Lokatölur voru 114-104 þar sem Manu Ginobili fór á kostum í liði San Antonio með 30 stig og 9 fráköst, en hann setti liðsmet með því að hitta úr öllum 18 vítaskotum sínum í leiknum.
Það er ekki á hverjum degi sem Spurs skora svo mikið, en þetta er 29. sigur þeirra í röð þegar þeir skora 100 stig eða meira.
Leikurinn var í járnum fyrstu þrjá leikhlutana en Spurs sigldu framúr á lokasprettinum. Í fyrri hálfleik voru hins vegar tveir merkisatburðir, annars vegar þegar Steve Nash gaf stoðsendingu nr. 7.161 á ferlinum og skákaði þannig þjálfara sínum Terry Porter í 11. sæti yfir flestar stoðsendingar á NBA-ferlinum. Þá gerði Shaquille O'Neal sitt 26.947. stig og komst þannig upp fyrir Hakeem Olajuwon í sjöunda sæti NBA-listans.
Með sigrinum komst San Antonio í annað sæti Vesturdeildarinnar, en Suns eru í því sjöunda og horfir fram á gríðarlega baráttu um sæti í úrslitakeppninni þar sem níu lið eru að berjast um átta sæti. 

ÞJ
Fréttir
- Auglýsing -