spot_img
HomeFréttirKobe með 61 stig í sigri, met í Madison Square GArden

Kobe með 61 stig í sigri, met í Madison Square GArden

09:20:38
Kobe Bryant sýndi og sannaði í nótt að það er enginn leikmaður í deildinni sem er líklegri til að gera út um leiki á eigin spýtur þegar hann tætti NY Knicks í sig og skoraði 61 stig í sigri Lakers.

Á meðan vann San Antonio Spurs góðan sigur á Golden State Warriors í framlengdum leik og fylgir í humátt á eftir Lakers í Vesturdeildinni, en New Orleans Hornets töpuðu 3. leiknum í röð, nú á móti Portland, sem skaust þannig upp fyrir Hornets í fjórða sæti Vesturdeildarinnar.

Þá bundu Memphis Grizzlies enda á 12 leikja taphrinu þegar þeir lögðu Washington Wizards og Dallas Mavericks unnu sigur á Orlando.

Nánar um leiki næturinnar hér að neðan…

Þar sem ljóst þykir að Andrew Bynum verður varla meira með Lakers fyrr en í fyrsta lagi í úrslitakeppninni í vor voru liðsfélagar hans ákveðnir í að sanna að þeir séu enn með í titilslagnum í NBA. Enginn í deildinni er ákveðnari en Kobe Bryant sem skildi Knicks eftir sem rjúkandi rúst með 61 stigs frammistöðu, en enginn hefur skorað meira í Madison Square Garden, síðustu sögufrægu byggingu deildarinnar.

Enginn annar en Michael Jordan átti gamla metið yfir flest stig andstæðings, 55 stig sem hann skoraði fyrir Bulls rétt eftir að hann sneri aftur eftir að hafa dúllað sér í hafnabolta í eitt og hálft ár, en Bernard King skoraði 60 stig fyrir heimaliðið árið 1984.

Þetta gefur góð fyrirheit, en ýmislegt fleira þarf til að komast í gegnum þétt leikjaprógramm þar sem Lakers mæta Celtics og Cleveland næstu daga.
Bryant skoraði að vild alls staðar af vellinum, stökkskot, gegnumbrot, þristar að ógleymdum 20 vítaskotum, en hann hitti úr öllum sínum vítum í leiknum. Í svona leik er auðvelt að gleyma frammistöðu annarra, en Pau Gasol átti einnig frábæran leik með 31 stig, 14 fráköst, 5 stoðsendingar og 2 varin skot. Lamar Odom, sem sneri aftur í byrjunarliðið átti líka góðan leik undir körfunni.
Hjá Knicks var Al Harrington með 24 stig og David Lee með  22 stig og 12 fráköst. Svo skemmtilega vildi til að Lee og Bryant voru einmitt í gær valdir leikmenn janúarmánaðar í Austur- og Vesturdeildinni.
Tvö af stærri liðum deildarinnar misstu leikmenn í meiðsli í leikjum næturinnar, en Jameer Nelson hjá Orlando Magic meiddist á öxl og ungstirnið Chris Paul, burðarásinn í liði New Orleans meiddist á nára.

Ekki er vitað hve lengi þeir verða frá, en þeir fara báðir í rannsóknir í dag.

Úrslit næturinnar:

ÞJ
Fréttir
- Auglýsing -