spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Sextánda umferðin hefst í kvöld

Leikir dagsins: Sextánda umferðin hefst í kvöld

11:56
{mosimage}

(Darri og félagar í KR taka á móti FSu í kvöld)

Topplið KR getur unnið sinn sextánda deildarsigur í röð í kvöld þegar nýliðar FSu mæta í DHL-Höllina kl. 19:15. Tveir aðrir leikir fara fram í Iceland Express deild karla í kvöld þegar Þór Akureyri tekur á móti Grindavík og ÍR fær nýliða Breiðabliks í heimsókn.

KR og FSu mættust í fimmtu umferð þar sem KR hafði öruggan 92-122 sigur á Selfossi. Síðan þá hafa Thomas Viglianco og Daði B. Grétarsson yfirgefið herbúðir FSu. Daði gekk til liðs við sitt gamla félag ÍR en Viglianco var látinn fara enda vann FSu aðeins einn leik með hann innanborðs. FSu er í 10. sæti deildarinnar með 12 stig og á í harðri baráttu um að halda sæti sínu í deildinni en KR er í óðaönn við að endurskrifa íslenska körfuknattleikssögu og geta landað sínum 16. deildarsigri í kvöld en liðið hefur ekki tapað leik frá upphafi tímabilsins. Þá tapaði KR heldur ekki leik á undirbúningstímabilinu. Þá var Brynjar Þór Björnsson á æfingu hjá KR í gærkvöldi og fróðlegt að sjá hvort hann verði í leikmannahópi KR í kvöld.

Þór Akureyri er í fallsæti eða 11. sæti í dag með 8 stig og hafa fengið Daniel Bandy til að leysa Cedric Isom af hólmi á meðan sá síðarnefndi jafnar sig af handarbroti. Grindvíkingar fyljga fast á hæla KR og eru í 2. sæti deildarinnar með 26 stig og hafa aðeins tapað gegn KR í DHL-Höllinni og gegn Stjörnunni í Ásgarði. Athygli er vakin á því að viðureign Þórs og Grindavíkur hefst kl. 17.30 á Akureyri!

Fjögur lið eru jöfn að stigum með 12 stig í deildinni en það eru ÍR, Breiðablik, FSu og Stjarnan öll í 7.-10. sæti í deildinni. Tvö þessara liða mætast í kvöld þegar ÍR tekur á móti Blikum í Seljaskóla. Fyrri viðureign liðanna í vetur fór fram í Smáranum þar sem Blikar höfðu nauman 75-71 sigur.

Þá fer einn leikur fram í 1. deild karla kl. 19:15 þegar Fjölnir tekur á móti Flúðamönnum. Einn leikur er svo í 2. deild karla í B-riðli þegar ÍA tekur á móti Brokey á Jaðarsbökkum.

[email protected]

Mynd: Snorri Örn Arnaldsson

Fréttir
- Auglýsing -