22:33
{mosimage}
Þorgrímur Björnsson
Unglingaflokkur Vals varð fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í bikarúrslitum yngri flokkanna þegar liðið vann 86-75 sigur á KFÍ í undanúrslitaleik liðanna í Vodafone-höllinni að Hlíðarenda í kvöld. Valur komst í 7-2 og 16-5 og var yfir 24-18 eftir fyrsta leikhluta. KFÍ komst yfir í 26-28 í öðrum leikhluta en Valur svaraði þá með 17-4 spretti og var 45-34 yfir í hálfleik. Valur hélt síðan ágætu forskoti allan seinni hálfleik og vann nokkuð öruggan sigur.
Tveir leikmenn Valsliðsins brutu 30 stiga múrinn og skoruðu 62 af 86 stigum liðsins. Þorgrímur G. Björnsson skoraði 32 stig og Hörður Helgi Hreiðarsson var með 30 stig. Þórir Guðmundsson skoraði 19 stig fyrir KFÍ og Daniel Kalov var með 18 stig.
Valur mætir annaðhvort Keflavík eð FSu í úrslitaleiknum en seinni undanúrslitaleikurinn í unglingaflokki karla fer fram í Keflavík 11. febrúar næstkomandi. Úrslitaleikurinn fer síðan fram í Toyota-höllinni í Keflavík helgina 28. febrúar til 1. mars.
Þetta verður fyrsti bikarúrslitaleikur Vals í unglingaflokki karla síðan 1991 þegar liðið tapaði naumlega fyrir Haukum, 63-60. Valur hefur aldrei orðið bikarmeistari í þessum flokki en margir af þessum strákum urðu bikarmeistarar með 11. flokk 2006 og 10. flokk 2004.
Mynd: Torfi Magnússon



