spot_img
HomeFréttirMorrison til Lakers fyrir Radmanovic

Morrison til Lakers fyrir Radmanovic

09:43:47
LA Lakers hafa fengið Adam Morrison frá Charlotte Bobcats í skiptum fyrir Vladimir Radmanovic . Auk þess fengu Lakers bakvörðinn Shannon Brown.

Morrison var valinn þriðji í nýliðavalinu fyrir þremur árum síðan. Hann kom upp úr háskóla með orðspor sem mikil stigamaskína. Hann hafði gott skot, hræðilegt yfirvaraskegg og mikið hár, sem gerði hann að miklu eftirlæti áhorfenda, en náði ekki að sýna hvað í honum bjó með Bobcats. Eftir fyrsta árið sem einkenndist af vonbrigðum meiddist hann á hné og kom ekkert við sögu á síðasta tímabili.

Eftir að Larry Brown tók við Bobcats fékk Morrison enn minna að spreyta sig þar sem hann þykir ekki góður varnarmaður, en nú kemur í ljós hvort Phil Jackson geti endurlífgað feril hans.

Vladimir Radmanovic hefur verið í herbúðum Lakers í þrjú ár þar sem hans sérgrein eru þriggja stiga skot, en þar sem hann er afar hávaxinn hefur hann nýst til að teygja á vörn andstæðinganna með því að lokka stærri menn út til að mæta sér.

Hann hefur þó ekki náð að sýna sínar bestu hliðar í ár og hefur aldrei leikið færri mínútur eða skorað færri stig á ferlinum.

Lakers hagnast á skiptunum að öðru leyti þar sem Radmanovic á tvö ár eftir af samningi sínum, en Morrison bara eitt.

Í umræðum um þessi skipti hefur vanhæfni Michael Jordan sem liðsstjórnanda enn og eftur komið fram í dagsljósið, en Jordan lét það vera sitt fyrsta verk eftir að ganga til liðs við Bobcats að velja Morrison númer þrjú, á undan mönnum eins og Brandon Roy og Rudy Gay. Það rifjar einnig upp eitthverja verstu nýliðavalsákvörðun allra tíma þegar Jordan valdi Kwame Brown fyrstan í nýliðavalinu 2000 fyrir hönd Washington Wizards.

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -