00:01:23
LA Lakers urðu í kvöld fyrsta liðið á þessari leiktíð til að leggja Cleveland Cavaliers á heimavelli. Þeir unnu góðan sigur, 101-91, gegn efsta liði Austurdeildarinnar, en á meðan unnu San Antonio Spurs sigur á Boston Celtics, 105-99, í mögnuðum leik sem var spennandi allt til loka.
Nánar um leikina tvo hér fyrir neðan…
Cleveland – LA Lakers
Lakers mættu til leiks á miklu flugi eftir að hafa unnið fimm útileiki í röð, síðast gegn Boston í gríðarlegum baráttuleik. Ljóst var fyrir leik að Kobe Bryant gekk ekki heill til skógar þar sem hann hafði veikst, en Lakers hafa marga til að taka við keflinu. Í þeim hópi er Lamar Odom, sem lítið hefur sést til í ár, enda var hann færður til í goggunarröðinni þegar Andrew Bynum kom aftur úr meiðslum í haust. Odom hefur svo aftur verið að finna sig betur eftir að Bynum meiddist og má segja að í kvöld hafi hann tekið Lakers á sínar breiðu herðar og borið þá til sigurs.
Cleveland hafði frumkvæðið framan af leik og leiddi í hálfleik, 61-52, en þá hrökk Odom í gang og fór hamförum undir körfunni. Hann reif niður fráköst í gríð og erg og skoraði hverja körfuna á fætur annarri, flestar eftir sóknarfráköst og kom Lakers aftur í gang. Ef Odom og Pau Gasol, sem átti einnig stórfínan leik, halda áfram á þessari braut verður biðin eftir Andrew Bynum ekki eins erfið og talið var í fyrstu.
Hjá Cleveland var LeBron James í tómu tjóni miðað við sinn eigin gríðarháa staðal og var með 16 stig og hræðilega skotnýtingu. Hann bætti að vísu við 12 stoðsendingum, en Mo Williams, með 19 stig, og Zydrunas Ilgauskas, með 22, þurftu að sjá um stigaskorunina í félagi við Wally Szerbiak sem var skæður fyrir utan 3ja stiga línuna og setti 16 stig.
Baráttuandinn í Lakers var mun meiri en hjá heimamönnum sem máttu þarna sætta sig við fyrsta ósigurinn á heimavelli í 23 leikjum.
Odom var stigahæstur Lakers með 28 stig og 17 fráköst, Kobe setti 19 stig, fárveikur og Gasol var með 18 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar.
Boston – San Antonio
San Antonio sýndi og sannaði í kvöld að þó þeir séu með elsta mannskap í deildinni eru þeir engu að síður færir um að leggja hvaða lið sem er. Í kvöld voru það meistarar Boston sem fengu að kenna á því, en Spurs skoruðu 11 stig í röð á rúmri mínútu þegar þeir voru þremur stigum undir og snéru leiknum á hvolf.
Rothöggið kom þegar 20 sek voru eftir þegar stórskyttan Roger Mason hristi Ray Allen af sér og smellti þrist af löngu færi og sló Celtics þar með út af laginu. Manu Ginobili stal svo boltanum stuttu seinna eftir innkast Boston og fékk villu á Pau Pierce og má segja að Spurs hafi klárað leikinn af línunni.
Eddie House og Kevin Garnett settu sinn hvorn þristinn fyrir Boston á síðustu sekúndunum, en það var full seint í rassinn gripið og San Antonio menn fögnuðu gífurlega í leikslok.
Tim Duncan var stigahæstur Spurs með 23 stig og bætti við 13 fráköstum, en miðherjinn Matt Bonner átti einnig stórfínan leik, með 23 stig eins og Duncan. Manu Ginobili kom enn og einu sinni sterkur inn af bekknum, en Tony Parker átti hins vegar afleitan leik og var með 7 stig og herfilega skotnýtingu.
Þrjú kunnugleg nöfn voru efst á blaði hjá Boston, en Garnett var með 26 stig og 12 fráköst á meðan Paul Pierce var með 19 stig og Ray Allen 18. Leikstjórnandinn Rajon Rondo var með 6 stig og 16 stoðsendingar.
ÞJ



