spot_img
HomeFréttirElvar tryggði Fjölni sæti í bikarúrslitunum

Elvar tryggði Fjölni sæti í bikarúrslitunum

22:20

{mosimage}

Elvar Sigurðsson tryggði Fjölni 69-67 sigur á Íslands- og bikarmeisturum Njarðvíkur í undanúrslitaleik bikarkeppni 11. flokks karla í ÍM í Grafarvogi í kvöld. Elvar skoraði sigurkörfu leiksins 57 sekúndum fyrir leikslok og Njarðvíkingar náðu ekki að svara þrátt fyrir að fá til þess þrjár sóknir. Leikurinn var æsispennandi sem sést ekki síst á því að liðin skiptu fjórtán sinnum um forustu og sextán sinnum stóðu leikar jafnir í þessum stórskemmtilega leik.

Fjölnir var 14-12 yfir eftir fyrsta leikhluta og með eins stigs forustu í hálfleik, 32-31. Fjölnir náði tíu stiga forskoti í upphafi seinni hálfleiks (44-34) en Njarðvík náði þá frábærum spretti, skoraði 15 stig í röð og komst yfir í 44-49. Njarðvík var síðan einu stigi yfir, 52-53, fyrir lokaleikhlutann. Fjórði leikhlutinn var síðan hnífjafn en Fjölnir var þó alltaf skrefinu á undan enda hafði Njarðvík náð að jafna í 65-65 og 67-67 áður en Elvar skoraði úrslitakörfuna.

Haukur Helgi Pálsson var með tröllatvennu hjá Fjölni, skoraði 28 stig, tók 20 fráköst, varði 5 skot og gaf 5 stoðsendingar. Elvar skoraði 15 stig og gaf 7 stoðsendingar. Lárus Ívarsson skoraði 8 stig og Björn Ingvi Björnsson var með 7 stig og 6 fráköst.

Hjá Njarðvík var Styrmir Gauti Fjeldsted atkvæðamestur með 17 stig og 7 fráköst. Valur Orri Valsson skoraði 16 stig á 18 mínútum en var í villuvandræðum og fékk að lokum sína fimmtu villu níu mínútum fyrir leikslok. Oddur Pétursson skoraði 12 stig fyrir Njarðvík og Andri Freysson var með 10 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar.

Þetta var langþráður sigur hjá Fjölnismönnum sem voru búnir að tapa þremur "úrslitaleikjum" í röð á móti Njarðvík í 1992- árganginum, fyrst í úrslitaleik Íslandsmótsins í 9. flokki 2007 (45-47), þá í 8 liða úrslitum bikarkeppni 10. flokks í fyrra (44-50) og loks í úrslitum Íslandsmótsins í 10. flokki 2008 (41-49). Nú var hinsvegar komið að Grafarvogspiltum að fagna sætum sigri.

Fjölnir mætir annaðhvort KR eða ÍBV í úrslitaleiknum sem fer fram í Toyota-höllinni í Keflavík helgina 28. febrúar til 1. mars næstkomandi.

Mynd: Snorri Örn Arnaldsson

Fréttir
- Auglýsing -