8:00
{mosimage}
Tómas Holton var einn af bestu leikmönnum Íslands í kringum 1990 og lék lengst af með Val en einnig Skallagrím, hefur leikið alls 319 leiki í Úrvalsdeild. Hann lék einnig um tíma í Ungverjalandi og svo Noregi. Í dag er hann þjálfari í yngri flokkum Fjölnis og hefur m.a. þjálfað 91 árgang þeirra sem hefur náð mjög góðu árangri.
Sjáum hvað Tómas hefur að segja:
Keflavík – KR
Bikarúrslitaleikir kvenna hafa verið frábærir undanfarin ár og það stefnir í enn einn stórleikinn. Þessi lið spiluðu mjög jafnan leik nýlega og ég á erfitt með að spá um úrslit. Það er nú erfitt fyrir gamlan Valsara að halda með KR en ég geri það nú samt. Ástæðan er að systurnar Guðrún og Sigrún eru í liðinu, en ég hafði mjög gaman af að þjálfa þær í Skallagrími á sínum tíma. KR vinnur 66-65.
KR – Stjarnan
Karlaleikurinn verður vonandi spennandi, en það er viss hætta á því að KR klári leikinn snemma. Ég hef séð nokkra leiki með KR og þeir eru með svakalega góða vörn og eru stundum óstöðvandi í sókn. Þeir sýndu hins vegar veikleika í tapleiknum gegn Grindavík um daginn. Mér fannst þeir bregðast illa við mótlæti og ná að rífa sig upp allt of seint. Það ætti að gefa öðrum liðum styrk. Stjarnan er í stuði þessa dagana. Aðalmálið er hvernig þeir koma undirbúnir andlega. Þar eru þeir með stóran sigurvegara á bekknum sem virðist vera að smita leikmenn af keppnishörkunni sem hann var þekktur fyrir hér áður fyrr. Get ekki spáð tvöföldum KR sigri og spái því Stjörnusigri í þessum leik, 70-69.
Mynd: www.fjolnir.is



