08:00
{mosimage}
Keflavík og KR eru sigursælustu kvennaliðin í bikarsögu KKÍ og annar glæstur bikarmeistaratitill mun koma í safnið hjá öðru hvoru liðinu eftir leik dagsins sem hefst kl. 14:00 í Laugardalshöll. Alls hefur Keflavík unnið 11 bikarmeistaratitla en KR 9. Keflavík varð síðast bikarmeistari árið 2004 en KR vann bikarinn síðast árið 2002. Liðin hafa eldað saman grátt silfur síðustu tvö keppnistímabil en KR voru nýliðar í Iceland Express deild kvenna á síðustu leiktíð en léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn gegn Keflavík sem hafði betur. KR hefur þó yfirhöndina í augnablikinu en Vesturbæingar unnu síðustu deildarviðureign liðanna eftir mikinn baráttuleik sem gaf virkilega góð fyrirheit fyrir viðureign dagsins.
Þegar Keflavík varð bikarmeistari árið 2004 léku þær einmitt til úrslita gegn KR en þá hét keppnin Lýsingarbikarinn en nú er komið nýtt nafn á keppnina eins og flestir þekkja og ber bikarkeppni KKÍ nafnið Subwaybikarinn. Í þessum úrslitaleik liðanna hafði Keflavík betur 72-69 en síðan þá hafa bæði lið tekið töluverðum stakkaskiptum. Reyndar eru þær enn í herbúðum Keflavíkur sem léku til úrslita 2004 þær Birna Valgarðsdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir, Marín Rós Karlsdóttir, Rannveig Randversdóttir, Svava Ósk Stefánsdóttir og Halldóra Andrésdóttir. Hjá KR voru systurnar Guðrún og Hildur Sigurðardætur í liði KR þetta árið en aðrar hafa haldið á önnur mið en í þessu silfurliði KR voru m.a. Tinna B. Sigmundsdóttir sem leikið hefur með ÍS og Val síðustu ár en starfar nú í Danmörku sem og dómarinn Georgia Kristiansen.
Jóhannes Árnason þjálfari KR hefur gert undraverða hluti með liðið frá því hann tók við KR í 1. deild en á sínu fyrsta úrvalsdeildarári með liðið kom Jóhann KR í úrslit gegn Keflavík en þá var honum til aðstoðar Óli Ásgeir Hermannsson. Óli Ásgeir er Jóhanni ekki til aðstoðar þessa leiktíðina en KR-ingar hafa fengið veglegan liðsstyrk í systrunum Guðrúnu og Sigrúnu Ámundadætrum og þá kom Margrét Kara Sturludóttir til liðs við KR á miðri leiktíð. Jóhannes hefur því farið með KR úr 1. deild upp í það að vera eitt sterkasta lið landsins og það á sinni þriðju leiktíð.
{mosimage}
(Birna Valgarðsdóttir)
Jón Halldór Eðvaldsson þjálfara Keflavíkurkvenna þarf vart að kynna fyrir körfuknattleiksáhugafólki en Jón hefur látið til sín taka í hreyfingunni um árabil. Jón var kannski hvað þekktastur sem dómari áður en hann tók við þjálfun Keflavíkurkvenna en liðinu stýrði hann til Íslandsmeistaratitils á síðustu leiktíð. Í tvígang hefur hann mátt horfa á eftir bikarmeistaratitlinum renna sér úr greipum. Fyrst þegar Keflavík tapaði gegn Haukum 77-78 í einum magnaðasta kvennaleik sem fram hefur farið hér á landi og var spennustigið vel yfir heilsufarsmörkum í Laugardalshöll þann daginn. Á síðustu leiktíð duttu Keflvíkingar síðan út í undanúrslitum gegn Grindavík sem síðar urðu bikarmeistarar í fyrsta sinn. Jón er því að mæta í Laugardalshöll í dag rétt eins og Jóhannes þjálfari KR til þess að sækja bikar sem hvorugur þeirra hefur áður unnið til.
Þjálfarar KR og Keflavíkur í kvennaleiknum eru eins og gefur að skilja báðir karlmenn en það gerðist síðast árið 1998 að kvenkynsþjálfari vann bikarmeistaratitil með sínu liði þar var á ferðinni Anna María Sveinsdóttir er hún stýrði Keflvíkingum til sigurs gegn ÍS 70-54. Síðan árið 1975 hafa aðeins þrjár konur stýrt liði til sigurs í bikarúrslitum. Þær eru Anna María Sveinsdóttir árið 1998, Kolbrún Jónsdóttir með Hauka árið 1984 og Guðný Eiríksdóttir með ÍS árið 1985.
{mosimage}
(Hildur Sigurðardóttir)
Líkleg byrjunarlið í dag:
KR
Hildur Sigurðardóttir
Guðrún Ámundadóttir
Margrét Kara Sturludóttir
Helga Einarsdóttir
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir
Keflavík
Pálína Gunnlaugsdóttir Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir
Svava Ósk Stefánsdóttir
Birna Valgarðsdóttir
Bryndís Guðmundsdóttir
Pálína Gunnlaugsdóttir mun gera bakvörðum KR lífið leitt með grimmri vörn en þessi magnaði bakvörður hefur einnig látið vel til sín taka í stigaskorinu í vetur og gerir hún að jafnaði 16,3 stig í leik með Keflavík í Iceland Express deild kvenna. Mikið mun mæða á Pálínu og sömuleiðis Hildi Sigurðardóttur leikstjórnanda KR en þessar tvær munu vafalítið stíga nettan dans á fjölum Hallarinnar í dag.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir KR og Bryndís Guðmundsdóttir Keflavík munu berjast af alefli um teginn. Bryndís hefur þó óðum verið að ná sínu fyrra formi eftir erfið og löng meiðsli og ef hún nær sér á strik í leiknum í dag er KR vandi á höndum. Sigrún Sjöfn er þó ekki þekkt fyrir neinar jólagjafir á vellinum og þekkir vel til í Höllinni. Sigrún mun skila sinni sterku tvennu, verður með 11-18 stig og eitthvað svipað af fráköstum.
Margrét Kara Sturludóttir fyrrum liðsmaður Keflavíkur hefur nokkuð að sanna í leiknum í dag en hún var ,,köld úti“ eins og sagt er um þá sem ekki sýna sitt besta andlit í kappleikjum. Kara átti miður góðan dag gegn Keflavík í deildinni fyrir skemmstu og verður líkast til mætt með hnefana á lofti í dag. Þar mun hún hitta fyrir þær Svövu og Ingibjörgu úr liði Keflavíkur en þetta eru þrír leikmenn sem þekkja vel til hvers annars og því fróðlegt að sjá hvernig þessar glímur verða.
Birna Valgarðsdóttir hefur skorað fyrir Keflavík undanfarið líkt og enginn sé morgundagurinn og ef KR hefur ekki góðar gætur á henni gæti Birna allt eins tekið upp á því að taka leikinn í sínar hendur. Henni til varnar verða þær Kara, Helga eða Sigrún og munu þær vafalítið eiga annasaman dag.
Góða skemmtun í Laugardalshöll!



