10:00
{mosimage}
(Jón Halldór ásamt fyrirliða sínum Ingibjörgu Elvu Vilbergsdóttur)
Keflvíkingurinn Jón Halldór Eðvaldsson stýrði Keflavík til silfurs í bikarkeppni KKÍ árið 2007 þegar Keflavík og Haukar mættust í hádramatískum leik í Laugardalshöll. Nú mætast Keflavík og KR í Höllinni kl. 14:00 í dag þar sem Jón Halldór freistar þess að vinna sinn fyrsta bikarmeistaratitil sem síðustu tvö tímabil hefur gengið honum úr greipum.
Ert þú að fara núna í Höllina til að sækja núna það sem rann þér úr greipum á þarsíðustu og síðustu leiktíð?
Auðvitað förum við í þennan leik til að vinna en ég hef oft verið þekktur fyrir að vera með miklar yfirlýsingar og einhver helvítis læti en aðstoðarþjálfarinn minn frá því í fyrra kenndi mér að það borgar sig oft að segja minna en meira! Þannig að eina sem ég get sagt er að við ætlum að mæta í þennan leik af 100% krafti og ég hef fulla trú á mínu liði. Ef við spilum vel þá vinnum við.
Eigum við von á öðrum eins leik og þegar liðin mættust síðast í deildinni?
Þetta fer eftir því hvernig spennustigið er, KR-ingarnir eru með fínt lið og með mikið af duglegum stelpum sem eru miklir íþróttamenn en það erum við með líka svo þetta getur orðið spennandi alveg frá fyrstu mínútu. Fólk sem mætti á síðasta leik sá að liðin spiluðu fast og börðust vel og það verður það sama uppi á teningnum í dag.
Úrslitaleikirnir í kvennaflokki síðustu ár hafa verið hjartastyrkjandi og þú hefur ekki farið neinn varhluta af því?
Hjartveikir menn ættu að hafa haldið sig frá þessum leikjum síðustu ár. Það tók heldur betur á dæluna hjá mér í hittífyrra þegar við töpuðum á móti Haukum á síðustu sekúndunum. Ég held að sá leikur hafi verið sá stærsti og flottasti kvennaleikur sem fram hefur farið á Íslandi með allri virðingu fyrir öllum öðrum leikjum. Því trúi ég því að leikurinn í dag verði mjög skemmtilegur.
Hvernig verður leikurinn í dag svona taktískt séð?
Það er kannski best að segja sem minnst um hvað við ætlum að gera en ég er hinsvegar viss um að KR ætli að reyna að loka vel á skytturnar okkar í þessum leik og það er bara eðlilegt og verður fróðlegt að sjá hvernig þeim tekst það.
Birna Valgarðsdóttir dró vagninn fyrir Keflavík í síðustu viðureign liðanna. Annar eins leikur hjá henni og veglegra framlag frá öðrum, gæti það skilað bikar?
Þetta snýst ekkert um Birnu! Þetta snýst um heildina hjá okkur því Birna vinnur þennan leik aldrei ein, það er bara þannig. Þetta snýst um 12 leikmenn á skýrslu og einhverja 9-10 sem spila og ef þessir leikmenn spila af eðlilegri getu þá vinnum við.



