7:23
{mosimage}
Nú er runninn upp bikarúrslitadagurinn og enn eigum við eftir að birta nokkrar spár. Byrjum daginn á spá Jóns Arnars Ingvarssonar þjálfara ÍR. Jón Arnar hefur tekið bæði prófað og koma sem leikmaður og þjálfari í bikarúrslitaleik og unnið í báðum hlutverkum.
Sjáum hvað Jón Arnar hefur að segja:
KR – Stjarnan
Bikarinn í karlaboltanum hefur aldrei boðið uppá verulega óvænt úrslit. Og þegar getumunurinn er mikill fyrirfram hefur það venjulega verið ávísun á ójafnan leik.
Því miður þá sé ég ekki neinar forsendur til annars en það verði raunin þetta árið.
KR ingar mæta til að bæta einum sjálfsögðum bikar í safnið, satt að segja þarf eitthvað að fara stórkostlega úrskeiðis til að það gangi ekki eftir.
Stjarnan eru ánægðir með að vera komnir í höllina og gera sér innst inni grein fyrir hversu langsótt þessi leið verður. Þeir munu væntanlega sættast á það að hanga aðeins í KR ingum og það mun fullnægja þeirra örlagakosti.
Með þessu er ég ekki að óska Stjörnunni einhvers heimsendis, ég vona svo sannarlega að þeir standi sig vel og geri þetta að áhugaverðum leik. Til þess þurfa þeir að hrekja söguna og hefðirnar. Þeir þurfa að nýta reynslu 3 bikarmeistara síðust 2ára og fá risaframlag frá nokkrum mönnum.
Keflavík – KR
Kvennabikarinn hefur í gegnum árin boðið uppá meiri dramantík. Í ár fáum við mjög áhugaverðan leik. Tvö íslensk lið sem eru væntanlega nokkuð jöfn að getu.
Það sem hefur oft vakið athygli mína er hversu öfgakenndar tilfinningar fylgja oft þessum leikjum. Þar sem við sjáum leikina sveiflast mjög mikið í takt við það. Oft höfum við séð lið algjörlega brotna saman þegar mótvindurinn blæs hressilega.
Í því ljósi tel ég að gæði þeirrar vinnu sem liðin setja í andlegan undirbúning kunni að ráða úrslitum. Sjálfstraust, yfirvegun og vel útfærð tæknileg og taktísk markmið verða örlagavaldar dagsins.
Mynd: karfan.is



