18:33
{mosimage}
(Stjörnumenn að lyfta bikarnum á loft í fyrsta skipti í sögu félagsins)
Stjarnan sigraði í dag hið gríðarsterka lið KR í úrslitum Supbwaybikarsins árið 2009. Stjarnan sýndi með sigrinum í dag hvers þeir eru megnugir en þeir leiddu leikinn svo gott sem frá upphafi til enda. Þar með er fyrsti bikarmeistaratitill Stjörnunnar í körfubolta staðreynd. Það var feiknarsterkur varnarleikur og liðsheildin sem færði bikarinn í Garðabæinn þetta árið en lið Stjörnunnar er gríðarlega vel að sigrinum komnir og fagnaðarlætin í leikslok létu ekki á sér standa. Stemmingin í höllinni í dag var hreint út sagt frábær og óhætt að segja að enginn hafi verið svikinn af góðum körfuboltaleik í laugardalshöllinni.
Það var strax ljóst á upphafsmínútum leiksins að Jón Arnór Stefánsson ætlaði ekki að láta sitt eftir liggja í dag en hann skoraði 10 stig af fyrstu 16 stigum Kr sem hafði frumkvæðið á upphafsmínútum leiksins. Þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður stóðu tölur 16-14 Kr í vil. Varnarleikur beggja liða var í aðalhlutverki þegar leið á fyrsta leikhluta en liðin skoruðu samanlagt aðeins 7 stig næstu fjórar mínúturnar. Stjarnan komst yfir í fyrsta skiptið í leiknum þegar ein mínúta var eftir af leikhlutanum, 19-20 og Justin Shouse var ekki lengi að bæta við það forskot með þriggja stiga körfu sem kveikti allhressilega í stuðningsmönnum stjörnunar. Jón Arnór Stefánsson átti seinustu orðin í fyrsta leikhluta með flautukörfu og minnkaði muninn niður í eitt stig, 24-25, en Jón Arnór skoraði heil 15 stig í fyrsta leikhluta.
{mosimage}
Leikurinn var alveg hnífjafn í byrjun annars leikhluta og mátti vart sjá á milli liðana. Justin Shouse sýndi oft glæsilega takta fyrir Stjörnuliðið sem hafði frumkvæðið. Stjörnuliðið var að spila fantavarnarleik og Jovan Zdravevski fór hreinlega á kostum undir körfunni. Þegar annar leikhluti var hálfnaður tók KR leikhlé en þeir voru hreinlega í bullandi varndræðum með að klára sóknirnar með sómasamlegum hættu. Stjarnan hafði lengst af 2-5 stiga forskot á KR sem voru ekki að spila þann varnarleik sem sést hefur í vetur. Stjarnan jók forskot sitt smám saman þegar leið á leikhlutan og þegar flautað var til hálfleiks var munurinn kominn í 7 stig, 35-42.
Stigahæstur fyrir Stjörnuna í hálfleik var Justin Shouse með 16 stig en næstir voru Jovan Zdravevski með 15 stig og 6 fráköst og Fannar Helgason með 7 stig og 10 fráköst. Hjá KR var Jón Arnór Stefánsson stigahæstur með 16 stig(þar af aðeins eitt í öðrum leikhluta) en næstir voru Darri Hilmarsson með 6 stig og Helgi Magnússon með 5 stig.
Stjarnan mætti virkilega ákveðin til leiks í seinni hálfleik og þegar rúmlega tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum hafði Stjarnan náð 10 stiga forskoti, 37-47. Vesturbæingarnir voru þó aldrei langt undan og munaði því aðeins fimm stigum þegar leikhlutinn var hálfnaður. Stjarnan var að nýta öll þau tækifæri sem gáfust og berjast um alla bolta sem skilaði þeim því forskoti sem þeir höfðu. Stuðningsmenn Stjörnunnar létu vel í sér heyra sem virkaði sem vítamínsprauta á liðið. Þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af leikhlutanum tóku KR leikhlé en þá stóðu tölur 48-57 Stjörnunni í vil. Spennustigið virtist vera farið að segja til sín því bæði lið voru að missa boltan klaufalega frá sér. Stjarnan hélt þó alltaf í forskotið og þegar ein mínúta var eftir af leikhlutanum var munurinn 10 stig, 51-61. Jón Arnór tók þá til sinna ráða og kveikti í stuðningsmönnum KR með 5 stigum í röð en þeir höfðu setið þöglir allan leikhlutan. Justin Shouse var hins vegar ekkert á því að gefa forskotið eftir og lagaði stöðuna með stórglæsilegri flautukörfu, 56-64.
Það fór ekki á milli mála að mikið lá undir því stuðningsmenn beggja liða fögnuðu hverri körfu eins og sigurkörfu væri að ræða og ekki vantaði lætin af bekkjum beggja liða heldur. Stjarnan hafði þó frumkvæðið allan tíman og þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhluanum höfðu þeir sjö stiga forskot, 62-69. Kr-ingar tóku þá leikhlé til að fara yfir sín mál. Það virtist hafa ágætis áhrif á KR liði sem pressaði gríðarlega næstu mínúturnar og þegar leikhlutinn var hálfnaður munaði aðeins 3 stigum á liðunum 69-72. Spennan magnaðist með hverri mínútunni sem leið og þegar rúmlega þrjár mínútur lifðu tók Stjarnan leikhlé en þá var munurinn aðeins 2 stig, 71-73. Það leið þó ekki að löngu þar til KR leituðu sömu lausnar en þeir tóku leikhlé þegar tvær mínútur voru eftir og staðan 73-78 Stjörnunni í vil. Lokamínútan var hreint út sagt æsispenanndi. Jason Dourisseau var sendur á línuna tvisvar og hann nýtti 3 af fjórum vítunum. Það dugði þó ekki til því Stjarnan náði að halda boltanum fram að lokasekúndunum þegar þeir klikkuðu á lokaskotinu. Kr brunuðu þá fram völlinn og freistuðu þess að vinna leikinn en Jason Dourisseau geigaði. Stjarnan fagnaði þar með svakalegum sigri á Kr í úrslitum Subwaybikarsins árið 2009.
Stigahæstur í liði Stjörnunnar í dag var Jovan Zdravevski með 23 stig en næstir voru Justin Shouse með 22 stig og 9 stoðsendingar og Fannar Helgason með 11 stig og 19 fráköst. Hjá Kr var Jón Arnór Stefánsson atkvæðamestur með 29 stig en næstir voru Jakob Sigurðarson með 15 stig og 10 stoðsendingar og Darri Hilmarsson með 9 stig.
Texti: Gísli Ólafsson
Myndir: [email protected] og Gunnar Gunnarsson
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}



