spot_img
HomeFréttirBikarpunktar: Jakkafötin fögnuðu bikarnum!

Bikarpunktar: Jakkafötin fögnuðu bikarnum!

21:32
{mosimage}

(Jóhannes var fínn í tauinu í Höllinni)

Hinar og þessar hliðar er að finna á bikarsunnudeginum í Laugardalshöll þar sem kvennalið KR og karlalið Stjörnunnar urðu Subwaybikarmeistarar. Við hjá Karfan.is höfum tekið nokkrar staðreyndir saman, sumar með góðri hjálp frá glæstu töl- og sagnfræðiutanumhaldi hjá KKÍ og sumar beint úr smiðju Karfan.is. Núna leitum við til lesenda sem hafa áhuga á því að bæta við þennan lista og það er örugglega úr nægu að moða. Ef efni berst með ágætum uppfærum við fréttina eftir því sem á líður.

– Teitur Örlygsson var að vinna sinn fyrsta bikarmeistaratitil sem aðalþjálfari liðs. Teitur hefur því orðið bikarmeistari 8 sinnum á ferlinum en þetta var jafnframt hans ellefti bikarúrslitaleikur. Teitur gerði 199 stig í 10 bikarúrslitaleikjum á ferlinum og hefur enginn leikmaður skorað meira en hann í úrslitaleikjunum. Síðasti bikarúrslitaleikur sem Teitur lék var einmitt gegn KR fyrir sjö árum síðan og þá hafði hann einnig sigur.

{mosimage}
(Teitur og jakkafötin fengu tolleringu)

– Stjarnan vann sinn fyrsta bikarmeistaratitil í körfuknattleik í sögu félagsins og varð aðeins annað liðið í bikarsögu KKÍ til þess að vinna bikarinn í fyrstu tilraun í Laugardalshöll. Hitt liðið var Grindavík árið 1995.

– Justin Shouse leikstjórnandi Stjörnunnar var að vinna sinn annan bikarmeistaratitil í röð en hann varð bikarmeistari með Snæfell á síðustu leiktíð.

– Með sigri sínum á KR varð Stjarnan aðeins tólfta íslenska félagið í karlaflokki til þess að verða bikarmeistari. Nú eru aðeins fjögur lið á landinu sem aðeins hafa orðið bikarmeistarar einu sinni en það eru Stjarnan, ÍS, Fram og Snæfell.

– Einar Þór Skarphéðinsson dæmdi sinn fyrsta bikarúrslitaleik í kvennaleik KR og Keflavíkur.

– Jón Guðmundsson dæmdi sinn fyrsta bikarúrslitaleik í karlaleik KR og Stjörnunnar.

  KR skoraði úr öllum sóknum sínum í fyrsta leikhluta uns þeir tóku sjálfir leikhlé, eftir leikhléið brenndu þeir strax af í næstu sókn og nokkrum sóknum þar á eftir en KR tók leikhlé er þeir leiddu í stöðunni 16-12. Spurning hvort þetta leikhlé hafi eyðilagt ,,run-ið“ hjá KR.

-KR er nítjánda félagið sem tekst að koma báðum meistaraflokksliðum sínum í úrslit bikarsins í Laugardalshöll. Aðeins sex af átján félögum hafa eignast tvöfalda bikarmeistara, það gerðu Keflvíkingar síðast árið 2004. Þetta var svo í sjötta sinn sem KR fer með bæði lið sín í bikarúrslit sama árið en Vesturbæingar hafa þó ekki unnið tvöfalt síðan 1977.

– Stjörnumaðurinn Justin Shouse er fyrsti Bandaríkjamaðurinn í níu ár til þess að verða bikarmeistari tvö ár í röð. Justin vann með Snæfell í fyrra en síðastur til að leika þetta eftir var Brenton Birmingham með Njarðvík 1999 og með Grindavík árið eftir.

– Keflavík og KR eru sigursælustu bikarliðin í kvennaflokki frá upphafi. Keflavík hefur unnið bikarinn 11 sinnum en eftir helgina hefur KR unnið bikarinn 10 sinnum.

– Jóhannes Árnason þjálfari KR er á sínu þriðja ári með KR liðið. Hann kom þeim upp úr 1. deild og landaði með KR silfri í Iceland Express deildinni á síðustu leiktíð og er nú kominn með bikargull eftir frækinn sigur á Keflavík um helgina. Jóhannes er fæddur og uppalinn KR-ingur og lék með 1980 árgangi KR sem var nánast óstöðvandi í yngri flokkum. Jóhannes er bróðir Lárusar Árnasonar sem einnig gerði garðinn frægan á árum áður með KR en nýverið hafa körfuknattleiksáhangendur séð honum bregða fyrir í netútsendingum KR TV.

– Fyrsta bikarúrslitaviðureign KR og Keflavíkur í kvennaflokki fór fram árið 1987. Alls hafa liðin mæst í úrslitum sex sinnum þar sem Keflavík hefur unnið fjórum sinnum. Engin félög, líka í karlaflokki, hafa mæst jafn oft í Laugardalshöll.

– Keflavíkurkonur hafa ekki unnið bikarinn í fimm ár eða síðan árið 2004 en það er lengsta bið kvennaliðs félagsins eftir bikarmeistaratitli síðan að fyrsti bikarinn kom í hús árið 1988.

– Tveir þjálfarar yfir helgina mættu í íþróttafatnaði á meðan tveir mættu í jakkafötum. Þeir sem mættu í jakkafötum unnu sína leiki (Jóhannes Árnason og Teitur Örlygsson).

– Jón Halldór Eðvaldsson er á sínu þriðja ári sem þjálfari Keflavíkurkvenna og hefur í tvígang mátt taka á móti bikarsilfri. Fyrst árið 2007 í spennuleik gegn Haukum og aftur nú á sunnudag gegn KR. Í fyrra duttu Keflvíkingar og Jón út úr keppninni í undanúrslitum er liðið lá gegn Grindavík sem síðar varð bikarmeistari.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -