21:36
{mosimage}
(María Lind Sigurðardóttir átti fína spretti í Haukaliðinu í kvöld)
Eftir glæstan sunnudag var bikarmeisturum KR komið kyrfilega niður á jörðina þegar liðið tók á móti Haukum í DHL-Höllinni í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Glæst sigurganga Hauka í deildinni heldur áfram eftir 72-83 sigur á KR. Haukasigurinn var aldrei í hættu en gestirnir tóku frumkvæðið snemma gegn döprum bikarmeisturum. Eftir leiki kvöldsins er ljóst að Haukar og Keflavík sitja hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar þar sem Keflavík lagði Hamar 76-81 í spennuleik í Hveragerði.
Slavica Dimovska var að finna sig vel í upphafi leiks og gerði 8 fyrstu stig Hauka sem leiddu 8-2 áður en KR rankaði lítið eitt við sér og minnkaði muninn í 8-10. Vörn KR var lin og Haukar nýttu það vel og settu 27 stig á bikarmeistarana í fyrsta leikhluta sem lauk í stöðunni 12-27 fyrir Hauka og því fór lokasprettur leikhlutans 2-17 fyrir Hauka. María Sigurðardóttir átti fína innkomu í liði Hauka og gerði síðustu tvö stig leikhlutans með flautukörfu eftir stökkskot í teig KR-inga.
Haukar komust í 12-32 í upphafi annars leikhluta og allt benti til þess að Hafnfirðingar myndu stinga af og það eftirminnilega. KR skipti fljótlega yfir í 2-3 svæðisvörn sem hægði nokkuð á Haukum og KR færðist nærri með þriggja stiga körfu frá Guðrúnu Ámundadóttur og staðan 21-34. Endaspretturinn fram að hálfleik var hnífjafn þar sem bæði lið gerðu sín hvor 10 stigin og því stóðu leikar 31-44 í hálfleik. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir var stigahæst hjá KR í hálfleik með 9 stig en hún var komin með þrjár villur.
Þriðji leikhluti var ansi sveiflukenndur svo ekki sé meira sagt. Vörn KR var glimrandi framan af og minnkuðu bikarmeistararnir muninn í 38-44 en þá sagði topplið Hauka hingað og ekki lengra! Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir fékk sína fimmtu villu þegar um fimm mínútur voru eftir af þriðja leikhluta og um svipað leyti gerði Kristrún Sigurjónsdóttir fyrstu stig Hauka í leikhlutanum. Eftir víti Kristrúnar gerðu Haukar út um leikinn með því að gera næstu 14 stig í þriðja leikhluta! KR gerði sem sagt 7 fyrstu stigin og Haukar næstu 16 og því var staðan 38-60 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
{mosimage}
(Guðrún Gróa lék vel framan af fyrir KR en fékk snemma 5 villur)
Fjórði leikhluti varð síðan ómyndarlegur í alla staði. Háskaleikir sáust um víðan völl og villurnar hrönnuðust upp og margir leikmenn í báðum liðum voru langt frá sínu besta. Þær Kristrún Sigurjónsdóttir og Slavica Dimovska voru áberandi bestar í leiknum. Kristrún með 31 stig og13 fráköst og Slavica með 21 stig og 5 stoðsendingar. Lokatölur urðu svo 72-83 og sama hvað Jóhannes Árnason reyndi til að kveikja neistann hjá bikarmeisturunum var eldiviðurinn ekki til staðar.
Hildur Sigurðardóttir lauk leik með 19 stig hjá KR, 7 fráköst og 5 stoðsendingar en næst henni var Sigrún Sjöfn Ámundadóttir með 14 stig. Enn er óljóst um endanlega stöðu KR og Hamars en KR hefur 20 stig í 3. sæti A-riðils en Hamar 18. Fjögur stig eru eftir í pottinum en KR og Hamar mætast einmitt í síðustu umferð riðilsins.
Nú er einnig nokkuð skýrt hvernig úrslitakeppnin verður skipuð. Haukar og Keflavík sitja hjá í fyrstu umferð á meðan KR og Hamar leika við tvö efstu liðin í B-riðli. Valskonur eru öruggar í B-riðli inn í úrslitakeppnina en Grindavík þarf að tapa síðustu tveimur leikjum sínum í B-riðli og Snæfell að vinna báða næstu leiki sína til að eiga möguleika á því að komast í úrslitakeppnina.
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}



