spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Lokaumferðin í kvennaboltanum

Leikir dagsins: Lokaumferðin í kvennaboltanum

09:13
{mosimage}

(Stærsti leikur kvöldsins er viðureign KR og Hamars)

Síðasta umferðin í Iceland Express deild kvenna fer fram í kvöld þar sem fjórir leikir verða á dagskrá og hefjast þeir allir kl. 19:15. Ljóst er að Keflavík og deildarmeistarar Hauka sitja hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en KR og Hamar mætast í úrslitaleik um 3. sætið. Endanleg niðurröðun í B-riðli er einnig klár þar sem Valur vann riðilinn og Grindavík hafnaði í 2. sæti. Fjölniskonur eru fallnar en þær hafa aðeins unnið einn leik á tímabilinu. Nýliðar Snæfells halda því sæti sínu í deildinni þar sem aðeins eitt lið fellur en Snæfell mun ekki leika í úrslitakeppninni.

Mikilvægasti leikur kvöldsins er viðureign KR og Hamars sem fram fer í DHL-Höllinni í Vesturbænum. Bæði lið hafa 20 stig í A-riðli en það lið sem vinnur í kvöld hreppir 3. sætið í A-riðli og mun leika í fyrstu umferð úrslitakeppninnar gegn Grindavík. Það lið sem tapar mætir Valskonum í fyrstu umferðinni. KR og Hamar mættust í spennuleik þann 7. febrúar síðastliðinn þar sem KR vann 76-79 í Hveragerði en í síðustu umferð unnu Hamarskonur sinn fyrsta sigur á nýja árinu og því spurning hvort þær geti haldið áfram góðu gengi á höfuðborgarsvæðinu. Hvergi verður brugðið út af vananum í Vesturbænum þar sem grillpartýið hefst kl. 18:00 og fyrir litlar 1000 kr. fæst hamborgari, kók og miði á leikinn, kostaboð!

Íslandsmeistarar Keflavíkur og deildarmeistarar Hauka mætast í Toyotahöllinni en það er gleðiefni fyrir Hauka að Telma B. Fjalarsdóttir er komin aftur á ról eftir hnémeiðsli. Telma lék í rúmar 8 mínútur í sínum fyrsta leik eftir meiðsli sem var tapleikurinn gegn Hamri í síðustu umferð. Leikurinn hefur þó ekkert um röðun í A-riðli að segja þar sem hún er ráðin og því verður keppt um annað en stig í Keflavík og von á forvitnilegum leik.

Fjölniskonur eru fallnar og taka á móti Snæfell í kvöld en hvorugt lið getur lagað sína stöðu og leika þau nú bæði sinn síðasta leik á tímabilinu.

Grindavík og Valur mætast svo í Röstinni í Grindavík en gular unnu góðan útisigur á Val í Vodafonehöllinni þegar liðin mættust þar 11. febrúar síðastliðinn. Síðan þá hafa Valskonur bætt við sig erlendum leikmanni að nafni Melissa Mitidiero sem gerði 24 stig í sínum fyrsta leik er Valur lagði Snæfell 103-71.

[email protected]

Mynd: Sævar Logi Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -