spot_img
HomeFréttirSigurður: Ekkert grín að koma hingað og sigra

Sigurður: Ekkert grín að koma hingað og sigra

22:51
{mosimage}

(Sigurður Ingimundarson)

Sigurður Ingimundarson var að vonum kátur með sína menn sem lögðu Stjörnuna 84-96 í Ásgarði í Iceland Express deild karla í kvöld. Leikurinn var jafn og spennandi en Keflvíkingar voru miklu mun ákveðnari á endasprettinum og settu niður hverja stórkörfuna á fætur annarri.

,,Já þetta er gott veganesti í leikinn gegn Njarðvík á mánudag og við erum ánægðir með að hafa unnið Stjörnuna hér í kvöld. Stjarnan er vissulega að berjast fyrir sæti sínu í úrslitakeppninni svo ég er sáttur,“ sagði Sigurður og sagði það ekkert óeðlilegt að vera að vinna bikarmeistara sem eru síðan að berjast fyrir sæti í úrslitakeppninni.

,,Nei nei, það er bara sá klassi yfir bikarkeppninni og skemmtilegt að þar eru allir jafnir þar sem allskonar lið geta sigrað. Án þess að taka neitt af Stjörnunni eru þeir ekki topp 4 lið en þeir eru góðir og það er ekkert grín að koma hingað og sigra,“ sagði Sigurður og var kátur með þriggja stiga sýningu sinna manna í kvöld. Var það smá nostalgía að sjá strákana raða svona þristunum niður eins og Guðjón Skúlason og þið félagar gerðuð hér í eina tíð?

,,Það er orðið svolítið síðan við spiluðum þannig (sem ógurlegt skotlið) en við eigum þetta inni og eigum nokkrar skyttur frá náttúrunnar hendi en höfum ekki verið að leggja eins mikið upp úr þriggja stiga skotunum eins og fyrir nokkrum árum síðan,“ sagði Sigurður sem viðurkenndi að slæmt væri að missa Þröst Leó Jóhannsson í meiðsli á þessum tímapunkti. Þröstur snéri sig illa í síðasta leik gegn Grindavík.

,,Vissulega slæmt að missa Þröst þegar það eru þrír leikir á einni viku og það minnkar hópinn en það koma alltaf menn og við höfum jafnvel verið að búa þá til í vetur og Elvar Sigurjónsson fékk tækifærið í kvöld og spilaði alveg eins og kóngur í fjarveru Þrastar. Það er jákvætt en ekki gott að missa Þröst sem verður ekki með í leik fyrir úrslitakeppnina en vonandi nær hann úrslitakeppninni,“ sagði Sigurður og víst að margir Keflvíkingar taka þarna vel undir orð landsliðsþjálfarans þar sem Þröstur er mikill baráttuhundur og stemmningsleikmaður. Næst á dagskrá hjá Keflavík er svo grannaslagur gegn Njarðvík og von á flugeldasýningu þar sem endranær þar sem þessir fornu fjendur mætast.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -