23:44
{mosimage}
(Þórsarar unnu mikilvægan sigur á Tindastól í kvöld)
Nágrannarnir Tindastóll og Þór leiddu saman lið sín í kvöld í kappleik á Króknum. Þór í vondum málum í næst neðsta sæti deildarinnar og þurftu sigur til að halda lífi í deildinni. Stólarnir enn í baráttu um sæti í úrslitakeppninni og því mikið undir. Tindastóll tefldi fram nýjum leikmanni í stað Darrell Flake að nafni Alphonso Pugh. Hann byrjaði þó ekki inn á í upphafi heldur voru það Friðrik, Svavar, Ísak og Helgarnir tveir, Freyr og Rafn. Hjá gestunum voru það Guðmundur, Daniel, Bjarki, Konrad og Jón sem hófu leik.
Svavar hóf leikinn með tvist, en síðan komu 6 stig frá Þórsurum. Liðin voru að hitta ágætlega í fyrsta fjórðung, en varnirnar að sama skapi ekki alltaf til fyrirmyndar. Stólarnir jöfnuðu strax og jafnræði var með liðunum og skiptust þau á forystu lengst af. Þegar ein mínúta lifði af leikhlutanum var staðan 28 – 25, en góður sprettur gestanna kom þeim yfir fyrir lok hans. Staðan 28 – 31.
Óðinn byrjaði annan leikhluta með þrist, en hann átti eftir að láta til sín taka fram að hléi. Þór hafði forystu allan leikhlutann og náðu mest 13 stiga forskoti í stöðunni 43 – 56 og ein og hálf mínúta til hálfleiks. Þá hrökk Friðrik Hreinsson heldur í gírinn fyrir heimamenn og sallaði niður þremur þristum í röð án svars gestanna og munurinn kominn niður í 4 stig þegar flautað var til hálfleiks. Friðrik og Svavar komnir með 15 stig hvor fyrir Tindastól, en hjá Þór var Konrad með 13 og Óðinn 12, öll í öðrum leikhluta. Einnig voru Guðmundur og Daniel Bandy búnir að vera sterkir og ógna með hraða sínum. Alphonso Pugh var með 9 stig fyrir Stólana og Helgi Rafn með 6 fráköst. Eins sést á stigaskorinu vantaði oft upp á varnarleik liðanna í fyrri hálfleik, en sóknarleikur liðanna gekk vel lengstum sérstaklega hjá Þór. Góður kafli Friðrik fyrir hlé bjargaði því að Stólarnir voru enn vel inn í leiknum og útlit fyrir spennandi síðari hálfleik.
{mosimage}
Þórsarar héldu frumkvæðinu eftir hlé, en Tindastóll var alltaf stutt frá þeim. Náðu að jafna leikinn 62 – 62, en Þór leyfði heimamönnum ekki að komast yfir og rifu sig aftur framúr. Leiddu með svona 5 – 8 stigum allt undir lok leikhlutans þegar Þór skoraði þrjú síðustu stiginn og náðu þá níu stiga forskoti, 75 – 84. Rikki náði sér ekki aftur á flug eftir hálfleikinn og dreifðist skorið nokkuð jafnt á heimamenn í þessum leikhluta. Hjá Þór steig Guðmundur upp og setti niður 9 stig.
Fyrstu stig fjórða leikhluta voru Þórs megin og munurinn orðinn tveggja stafa tala, 75 – 86. Hann hélst svipaður fram að miðjum leikhlutanum þegar staðan var 82 – 92. Þá hresstust Stólarnir og söxuðu jafn og þétt niður muninn. Sniðskot frá Ísak kom honum niður í aðeins tvö stig 94 – 96 og áhorfendur farnir að sjá fram á enn einar spennandi lokamínútur hjá þessum tveimur liðum. Daniel Bandy svaraði með þristi, en sama gerði Helgi Freyr fyrir Tindastól. Þá komu fjögur stig í röð frá Þór og staðan 97 – 105 og um hálf mínúta eftir. Aftur skoraði Helgi Freyr þrist og ekki öll von enn úti. Þór fór í sókn og brotið var á Konrad Tota af Svavari sem þar með fékk sína fimmtu villu. Tota skoraði úr báðum vítunum og Kiddi tók leikhlé fyrir Tindastól. Þeir fengu boltann inn á miðju eftir leikhléið og Þórsrar brutu á Ísak uppúr innkastinu. Tólf sekúndur eftir þegar Ísak fór á vítalínuna og setti bæði vítin niður. Þór tók sitt síðasta leikhlé og fóru síðan í sókn, staðan 102 – 105 og Þórsarar leituðu að þristi þar sem fyrri leik liðanna lauk með fimm stiga sigri Tindastóls og til að hafa betur í innbyrðis viðureignum þurfti Þór að vinna með 6 stigum hið minnsta. Konrad reyndi þriggja stiga skottilraun, en brotið var á honum og fékk hann því þrjú víti þegar 6 sekúndur voru eftir. Hann klikkaði á tveimur fyrstu vítunum og því reyndi hann að hitta ekki úr því þriðja til að Þór ætti sjéns á frákastinu og kannski einu skoti í viðbót. Það gekk eftir, Daneil náði frákastinu og Guðmundur Jónsson fékk síðan síðasta skot leiksins, en það geigaði og því "aðeins" þriggja stiga sigur Þórs í höfn, en sigur engu að síður og heldur enn lífinu í vonum þeirra um að halda sér í deildinni. Lokastaðan 102 – 105.
{mosimage}
Hjá Tindastóli var Svavar stigahæstur með 28 stig og virðist hann ná sér vel á strik gegn nágrönnunum. Næstur honum kom Helgi Freyr með 22 stig og Friðrik með 20, en hann náði sér ekki alveg á strik í síðari hálfleik. Helgi Rafn var að vanda sterkur í fráköstunum með 10 stykki. Nýi maðurinn Alphonso Pugh náði sér ekki alveg á strik, en verður vonandi styrkur á lokakaflanum. Hjá Þór var Óðinn Ásgeirsson nokkuð heitur í kvöld með 26 stig, einnig átti Konrad Tota fínan leik með 25 stig. Þá skiluðu Daniel Bandy og Guðmundur Jónsson góðum leik og voru báðir með 18 stig hvor. Eftir leikinn er Þór með 10 stig, en Tindastóll er í áttunda sæti með 14 stig, jafn mörg og FSu og Breiðablik.
Stigaskor Tindastóls: Svavar 28, Helgi Freyr 22, Friðrik 20, Pugh 13, Ísak 12, Helgi Rafn 5 og Óli 2.
Þór: Óðinn 26, Tota 25, Bandy 18, Guðmundur 18, Hrafn 10, Bjarki 3, Jón 3 og Baldur
2.
Dómarar kvöldsins voru þeir Kristinn Óskarsson og Einar Skarphéðinsson og áttu bara ágætis kvöld og lítið undan þeim að kvarta og átti Kristinn sérstaklega falleg tilþrif í lok þriðja leikhluta.
Texti: Jóhann Sigmarsson.
Myndir Ingólfur Jóhannsson.
{mosimage}
{mosimage}



