11:32
{mosimage}
Nágrannaslagur Keflavíkur og Njarðvíkur er eitthvað sem löngum hefur verið hjartastyrkjandi og því ekki verra að hefja síðari keppnisdaginn á bikarúrslitahelgi yngriflokka á viðureign þessara fornu fjenda í 9. flokki kvenna. Eyrún Líf Sigurðardóttir virtist vera sú eina í Njarðvíkurliðinu sem fór fram úr réttu megin í morgun en hún gerði öll 7 stig upphafsleikhlutans hjá Njarðvík. Keflvíkingar voru hinsvegar töluvert sprækari með Lovísu Falsdóttur í broddi fylkingar en Lovísa gerði 9 stig í fyrsta leikhluta þar sem Keflavík var miklu sprækari og leiddu að honum loknum 30-9. Eva Rós Guðmundsdóttir var einnig grimm í Keflavíkurliðinu og gerði 8 stig og tók 8 fráköst í fyrsta leikhluta. Njarðvíkingar áttu ekki gott í vændum!
Nokkuð hægðist á leiknum í öðrum leikhluta og Njarðvíkingar, aðrir en Eyrún Líf, náðu að koma sér á blað í stigaskorinu en Keflvíkingar voru áfram töluvert sterkari og unnu leikhlutann 13-5 og leikar því 43-14 fyrir Keflavík í hálfleik og mikið vatn þurfti að renna til sjávar ef Njarðvíkingar ætluðu að veita Keflavík einhverja samkeppni í þessum leik.
Ingunn Embla Kristínardóttir var stigahæst hjá Keflavík í hálfleik með 12 stig en henni næst var Eva Rós Guðmundsdóttir með 11 stig og 11 fráköst. Hjá Njarðvík var Eyrún Líf Sigurðardóttir atkvæðamest með 9 stig og 2 fráköst.
Yfirburðir Keflavíkur voru óumdeildir og sama hvað Njarðvíkingar höfðu plottað í hálfleik þá var það allt skotið í kaf og Keflavík leiddi 65-22 að loknum þriðja leikhluta.
{mosimage}
Njarðvíkingar gáfust ekki upp baráttulaust en munurinn var einfaldlega orðinn of mikill. Vörn Njarðvíkinga batnaði til muna en glöggt má sjá að Keflvíkingar hafa á að skipa úrvalsliði í þessum árgangi og voru feikilega vel að sigrinum komnar. Lokatölur 75-41 þar sem Eva Rós Guðmundsdóttir fór mikinn í Keflavíkurliðinu með 23 stig, 18 fráköst og 5 stoðsendingar og var fyrir vikið valin besti leikmaður úrslitaleiksins. Næst henni í liði Keflavíkur var Lovísa Falsdóttir með 13 stig og 3 stoðsendingar. Hjá Njarðvík var Eyrún Líf Sigurðardóttir stigahæst með 13 stig og 3 fráköst.
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}



